Körfubolti

Skrautleg byrjun Sundsvall í tapi á móti Gothia í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson var næststigahæstur hjá Sundsvall.
Jakob Örn Sigurðarson var næststigahæstur hjá Sundsvall. Mynd/Vilhelm
Íslendingaliðin Sundsvall Dragons og Solna töpuðu bæði leikjum sínum í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Sundsvall tapaði með 23 stigum á útivelli á móti Gothia en Solna mátti þola naumt tveggja stiga tap  á heimavelli á móti Boras.

Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Sundsvall Dragons mættu eiginlega ekki til leiks fyrr en í öðrum leikhluta þegar þeir voru komnir 30-8 undir í leik sínum á móti Gothia Basket. Heimamenn í Gothia nýttu sér það voru 40-28 yfir í hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur, 89-66.

Jakob Örn var næstatkvæðamestur í liði Sundsvall með 17 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar en hann hitti úr 4 af 12 skotum sínum í leiknum þar af 1 af 7 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Solna tapaði 78-80 á heimavelli á móti Boras þar sem Helgi Már Magnússon kom með 4 stig og 6 fráköst inn af bekknum. Boras-liðið var tíu stigum yfir í hálfleik, 40-30, og var með lengstum með góð tök á leiknum.

Solna kom hinsvegar til baka á lokakafla leiksins og náði muninum tvisvar niður í eitt stig á lokamínútu leiksins. Helgi spilaði lokamínútur leiksins, lék alls í 25 mínútur og hitti úr 2 af 5 skotum sínum.

Tapleikirnir komu sér illa fyrir lið þeirra Jakobs og Helga í baráttunni á toppnum því Plannja náði fjögurra stiga forustu á Sundsvall í baráttunni um annað sætið og Solna kemur síðan í 4. sætinu sex stigum á eftir Sundsvall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×