Körfubolti

Duke og Butler mætast í úrslitaleiknum í NCAA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn Duke fagna hér sigri í nótt.
Liðsmenn Duke fagna hér sigri í nótt. Mynd/AP
Duke og Butler tryggðu sér sæti í úrslitaleik NCAA háskólaboltans í nótt en þá fóru fram undanúrslitaleikirnir í fram í Lucas Oil-leikvanginum í Indianapolis í Indiana. Butler er komið í fyrsta sinn í úrslitaleikinn eftir 52-50 sigur á Michigan State en Duke vann sannfærandi 78-57 sigur á West Virginia og er komið í úrslitaleikinn í tíunda sinn.

Mike Krzyzewski, þjálfari bandaríska landsliðsins í körfubolta, er þjálfari Duke-skólans og hefur verið það í 30 ár. Duke er komið í úrslitaleikinn í fyrsta sinn síðan 2001 en liðið er sigurstranglegra í úrslitaleiknum á mánudaginn enda búið að vinna síðustu 25 leiki sína. Mike Krzyzewski getur gert Duke að bandarískum meisturum í fjórða sinn en liðið vann titilinn undir hans stjórn árin 1991, 1992 og 2001.

Jon Scheyer (196 sm bakvörður) var atkvæðamestur hjá Duke með 23 stig og 6 stoðsendingar, Kyle Singler (206 sm framherji) skoraði 21 stig og Nolan Smith (188 sm bakvörður) var með 19 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar.

Butler er komið í fyrsta sinn í úrslitaleik NCAA-háskólaboltans en þjálfari liðsins er hinn 33 ára gamli Brad Stevens sem verður annar yngsti þjálfarinn til að stýra liði í úrslitaleik NCAA-deildarinnar. Gordon Hayward (206 framherji) vae með 19 stig og 9 fráköst fyrir Butler í sigrinum á Michigan State.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×