Körfubolti

Breyttir tímar í argentínskum körfubolta - Litháen í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Litháar lokuðu nær alveg á Luis Scola (til vinstri) í leiknum.
Litháar lokuðu nær alveg á Luis Scola (til vinstri) í leiknum. Mynd/AP
Litháen komst í undanúrslit á HM í körfubolta í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar með því að vinna 104-85 sigur á Argentínu í átta liða úrslitum á HM í Tyrklandi í gær. Litháen hefur keppt undir sínu nafni frá og með 1994-keppninni og hafði best náð 7. sæti.

Litháar mættu sjóðheitir til leiks og hittu úr 9 af fyrstu 11 þriggja stiga skotum sínum. Það var sama hver skaut það fór allt ofan í. Simas Jasaitis skoraði mest 16 stig fyrir Litháen en sjö leikmenn skoruðu tólf stig eða meira í liðinu.

Carlos Delfino skoraði 25 stig fyrir Argentínu en Litháar héldu stigahæsta leikmanni mótsins Luis Scola í aðeins 13 stigum og 31 prósent skotnýtingu. Scola hafði brotið 30 stiga múrinn í fimm leikjum í röð.

Þetta tap argentínska liðsins þýðir að í fyrsta sinn í heilan áratug nær Argentína ekki að vera í hópi fjögurra efstu á einu af þremur stórum mótunum: Ólympíuleikum, Heimsmeistarakeppni eða Ameríkukeppninni. Það má því segja að nú séu breyttir tímar í argentínskum körfubolta.

Litháar mæta Bandaríkjunum í undanúrslitunum á morgun en í hinum leiknum mætast heimamenn í Tyrklandi og Serbíu sem sló einmitt út heimsmeistara Spánverja í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×