Erlent

Heita 180 milljónum hverjum þeim sem finnur Gaddafi

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Rúmlega einni og hálfri milljón dollara eða sem samsvarar hundrað og áttatíu milljónum íslenskra króna og friðhelgi hefur verið heitið hverjum þeim sem handsamar eða drepur Gaddafi fyrrum einræðisherra Líbíu. Þrjátíu og sex erlendum blaðamönnum hefur nú verið sleppt úr sex daga gíslingu í Trípólí.

Í dag hafa líbískir uppreisnarmenn leitað Gaddafi og bandamanna hans í Trípólí.

Tómlegt var um að lítast við byrgi Gaddafi í miðborg Trípólí í dag og allstaðar mátti sjá leifar af bardögum og fögnuði uppreisnarmanna síðustu daga. Harðir bardagar hafa þó geisað milli stuðningsmanna Gaddafi og uppreisnarmanna í dag sem telja sig nú hafa náð yfirráðum yfir um 95 prósent borgarinnar.

Enginn veit þó hvar fyrrum einræðisherrans heldur sig en þjóðarráð uppreisnarmanna hefur heitið 2 milljónum dínera eða um 180 milljónum króna og friðhelgi hverjum þeim sem tekst að handsama eða drepa fyrrum einræðisherrann.

Þá mun NATO halda áfram hernaðaraðgerðum sínum svo lengi sem þurfa þykir.

En það eru líka góðar féttir sem berast, þrjátíu og sex erlendum blaðamönnum sem tveir stuðningsmenn Gaddafi vopnaðir hríðskotarifflum hafa undanfarna daga haldið í gíslingu á lúxus hóteli í miðborg Trípólí var loksins sleppt úr haldi síðdegis í dag. Starfsmenn hótelsins voru flúnir að vettvangi og því hafa blaðamennirnir haldið til á göngum hótelsins í von og ótta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×