Erlent

Blaðamenn í stofufangelsi í Tripoli

Blaðamennirnir á Rixos eru klæddir í skotheld vesti og hjálma í rosalegum hitanum í Tripoli.
Blaðamennirnir á Rixos eru klæddir í skotheld vesti og hjálma í rosalegum hitanum í Tripoli. Mynd/AFP
Um 35 erlendir blaðamenn eru fastir á Rixos hótelinu í Tripoli. Hótelið er umkringt stuðningsmönnum Gaddafi sem varna blaðamönnunum útgöngu. Bardagar geisa í kring. Byssumenn eru á göngunum, leyniskyttur á þakinu. Ef þeir reyna að sleppa út er byssum beint að þeim.

Blaðamennirnir hafa verið fastir á hótelinu í fimm daga. Þeir segja aðstæðurnar ömurlegar og spennan sé að magnast upp meðal þeirra. Enginn svaf sérlega vel í nótt. Matarbirgðir eru mjög af skornum skammti, samkvæmt frétt vefmiðli Guardian.

„Ég fékk mér mars-stykki í morgunmat," sagði einn blaðamannanna á twittersíðu sinni í morgun, en þeir hafa mikið notað twitter til að koma skilaboðum frá sér. Áður hafði hann skrifað „Ég vona að þessi martröð endi ekki með hvelli."

Bardagarnir í landinu hafa stöðugt færst nær hótelinu. Blaðamennirnir eru á svæði sem er eitt fárra sem enn eru undir stjórn liðsmanna Gaddafi í borginni. „Við höfum á tilfinningunni að eitthvað muni gerast fljótlega. Hvað nákvæmlega vitum við ekki," segir einn þeirra og óttast mjög að hermennirnir  snúist gegn þeim á hverri stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×