Erlent

Hu Jia sleppt úr fangelsi í Kína

Hu Jia.
Hu Jia.
Kínverska andófsmanninum Hu Jia hefur verið sleppt úr fangelsi í Kína og dvelur nú með fjölskyldu sinni, en eiginkona hans greindi frá þessu á Twitter.

Hu var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir niðurrifsstarfsemi en hann átti að ljúka afplánun í dag. Lögreglan í Peking er með mikinn viðbúnað fyrir utan heimili hans og virðist hann vera í einhvers konar stofufangelsi, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Jia er þrjátíu og sjö ára gamall og hefur barist fyrir mannréttindamálum í Kína um árabil. Á meðal helstu baráttumála hafa verið umhverfismál, trúfrelsi og réttindi þeirra sem smitaðir eru af HIV veirunni.

Mannréttindabrot eru enn landlæg í Kína, en í síðustu viku var listamanninum Ai Weiwei sleppt, en gæsluvarðhald sem Weiwei hafði þurft að sæta, að því er virðist án þess að hafa framið nokkurt afbrot, eða vera grunaður um slíkt, hafði vakið hörð viðbrögð á heimsvísu.

Kínversk yfirvöld segja hins vegar að Weiwei hafi viðurkennt skattundanskot og frelsisskerðing hans tengist rannsókn á þeim afbrotum. Báðum mönnunum, Hu og Weiwei, virðist hafa verið meinað að ræða við fjölmiðla en mannréttindasamtök víða um heim hafa tekið upp málstað beggja mannanna.

Þá fékk kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári. Liu situr í fangelsi fyrir að hvetja til pólitískra umbóta og aukins tjáningar- og trúfrelsis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×