Erlent

Fallinn einræðisherra til í viðræður um myndun bráðabirgðarstjórnar

Það er ljóst hvað landsmönnum finnst um Gaddafi.
Það er ljóst hvað landsmönnum finnst um Gaddafi.
Muhammed Gaddafi segist reiðubúinn að ganga til viðræðna við uppreisnarmenn um myndun bráðabyrgðarstjórnar í Líbíu. Um 2,9 milljarða dollara vantar í opinberan fjárfestingarsjóð líbíska ríkisins. Grunur leikur á a  fjárfestingarsjóðurinn hafi verið misnotaður.

Litlar líkur eru taldar á að uppreisnarmenn þiggi boð Gaddafis um viðræður en fé hefur verið heitið til höfuðs Gaddafi, sem hefur farið huldu höfði, eftir að uppreisnarmenn náðu Trípóli, höfuðborg Líbíu á sitt vald.

Afleiðingar átakanna koma nú sífellt betur í ljós. Á föstudaginn uppgötvuðust hundrað lík á sjúkrahúsi í Líbíu. Hinir látnu höfðu verið myrtir af sveitum Gaddafis síðustu dagana áður en borgin féll. Enn er barist á götum og er mannfall af völdum leyniskyttna mikið. Þá hefur Græna torgið í Trípólí fengið nýtt nafn og er nú kallað Píslarvættistorgið - til að heiðra minningu þeirra uppreisnarmanna sem létu lífið í bardögunum gegn hersveitum Gaddafis.

Flestir telja að Gaddafi sé flúinn frá Líbíu. Hann fari nú huldu höfði. Líklega væsir þó ekki um Gaddafi í útlegðinni. Nú hefur komið í ljós að um 2,9 milljarða dollara vantar í opinberan fjárfestingarsjóð líbíska ríkisins, eða jafnvirði um 330 milljarða króna.

Mahmoud Badi, sem sér um að yfirfara erlendar fjárfestingar sjóðsins, segir að svo virðist sem fjárfestingarsjóðurinn hafi verið misnotaður. Sjóðurinn á um sjötíu milljarða dollara í eignum, en hann var settur á laggirnar árið 2006 af Saif al-Islam, einum af sonum Gaddafís. Sjóðurinn á hluti í ítalska bankanum UniCredit, ítalska knattspyrnuliðinu Juventus og Pearson, útgáfufélagi Financial Times, svo fátt eitt sé nefnt. Badi var settur í embættið af umbreytingarstjórninni í Líbíu og BBC hefur eftir honum að öllum meðulum verði beitt til að endurheimta peningana.

Því hefur verið haldið fram að tíu ár muni taka að byggja upp innviði Líbíu eftir átökin í aðdraganda þess að Gaddafí hrökklaðist frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×