Erlent

Harpan eins og risavaxið sjónvarp inn í hjólhýsi

Harpan á menningarnótt.
Harpan á menningarnótt.
Breski greinahöfundurinn Rowan Moore er heillaður af glerlistaverki Ólafs Elíassonar í Hörpunni en Rowan skrifar nokkurskonar gagnrýni um Hörpuna í The Observer í dag.

Í greininni spyr Rowan reyndar hvernig það geti verið að 300 þúsund manna þjóð þurfi á að halda tónleikahúsi af sömu stærðagráðu og Harpan. Kostnaðurinn hafi verið gríðarlegur, húsið státi fjórum sölum fyrir ráðstefnur og tónleika en sá stærsti rúmar átján hundruð manns.

Til samanburðar bendir Rowan á að Ísland sé jafn fjölmennt og Ipswich.

En hvað um það, höfundurinn er augljóslega hrifinn af hönnun Ólafs. Hann segir glerhjúpinn vissulega krystalkenndan, „og samkvæmt opinberu skýringunni, sækir hönnunin innblástur sinn í eldfjöll. Hjúpurinn glitrar. Hann er dálítið diskó," skrifar Rowan og bætir við að það sé nokkurskonar Brezhnev-sovéskur arkitektúr við hjúpinn - en með smá „blingi" eins og rowan orðar það sjálfur.

Þrátt fyrir tilkomumikla byggingu segir Rowan að Harpa sé engu að síður á skjön við umhverfið. Það sé í raun eins og 64 tommu flatskjár inni í hjólhýsi.

Rowan segir húsið eiga eftir að finna sinn tilgang, og að enginn sem hann ræddi við á Íslandi myndi endurtaka leikinn, það er, byggingu hússins, með sama hætti og gert var.

Að lokum bætir hann við að það gæti komið að þeim tímapunkti að risastórt sjónvarp væri góð fjárfesting til þess að bæta skapið, og slíkt hið sama ætti við ótrúlegan glerhjúp Ólafs Elíassonar.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×