Erlent

Árásir í Sýrlandi halda áfram

Enn var skotið á mótmælendur í Sýrlandi í gær.
Enn var skotið á mótmælendur í Sýrlandi í gær.
Sjö manns létu lífið þegar öryggissveitir í Sýrlandi skutu á mótmælendur í gær. Fréttir berast af því að árásir hafi haldið áfram í dag, öryggissveitir hafi ráðist inn í þorp og handtekið marga.

Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna gagnrýndi forseta landsins, Bashar al-Assad, mjög í gær, en Assad lofaði síðastliðinn miðvikudag að ofbeldinu í Sýrlandi myndi linna.

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa bannað fréttaflutning frá landinu og þar af leiðandi er erfitt að fá staðfestar fréttir af svæðinu. Hins vegar fékk hópur frá Sameinuðu Þjóðunum leyfi til að ferðast um helstu átakasvæðin og meta aðstæður. Árásirnar í gær komu í kjölfar heimsóknarinnar, en íbúar svæðisins sögðu allt hafa verið rólegt þar til hópur Sameinuðu Þjóðanna yfirgaf svæðið.

Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna ákvað í dag að skipa nefnd til að rannsaka atburðarrás síðustu mánuða í Sýrlandi. Sérstaklega verður athugað hvort átt hafi sér stað „glæpir gegn mannkyni". Nefndin mun skila af sér áliti í lok nóvember.

Yfir 2.200 manns hafa látið lífið í mótmælunum í Sýrlandi undanfarið, mestanpart óvopnaðir mótmælendur. Sýrland hefur í kjölfarið einangrast mjög frá umheiminum. Síðustu daga hafa leiðtogar heimsins, hver á fætur öðrum, krafist þess að Assad forseti láti af völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×