Erlent

Kynlífs-skatta-miðar í Þýskalandi

Vændiskonur stimpla sig hér eftir inn á vakt í Bonn.
Vændiskonur stimpla sig hér eftir inn á vakt í Bonn.
Vændiskonur í þýsku borginni Bonn munu héðan í frá þurfa að ganga með miða, sem þær fá úr vélum sem minna helst á stöðumæla-vélarnar í miðbæ Reykjavíkur. Ef þær verða gripnar án miðans munu þær fá háar sektir frá skattayfirvöldum, samkvæmt nýjum reglum sem tóku gildi í gærkvöldi.

Vændiskonur í Þýskalandi borga tekjuskatt, en hingað til hefur reynst erfitt að fylgjast með innkomu kvenna sem selja sig. Nú hafa yfirvöld brugðið á það ráð að selja „kynlífs-skatta-miða" úr þar til gerðum vélum. Vændiskonur þurfa þá að kaupa einn miða á kvöldi fyrir 6 evrur (tæpar 1000 isk) svo þær geti unnið löglega.

Yfirvöld munu gera út eftirlitsmenn sem fylgjast með því hvort vændiskonur fari að reglunum. „Þeir verða á vakt - ekki á hverju kvöldi, en reglulega," segir starfsmaður borgarinnar.

Um 200 vændikonur starfa nú í Bonn en vegna mótmæla íbúa borgarinnar hafa yfirvöld mælst til þess að starfsemin fari aðeins fram í ákveðnum hverfum.

Í desember á síðasta ári sagði fréttastofa Reuters frá svipaðri skattlagningu í þýsku borginni Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×