Erlent

Hungurverkfallið heldur áfram

Almenningur þusti út á götur í gær til að mótmæla handtöku Anna Hazare. Honum var sleppt úr haldi skömmu siðar.
Almenningur þusti út á götur í gær til að mótmæla handtöku Anna Hazare. Honum var sleppt úr haldi skömmu siðar. Fréttablaðið/ap
Indverska baráttumanninum Anna Hazare var sleppt úr haldi í gær eftir að hafa verið settur í varðhald vegna fyrirhugaðs hungurverkfalls til að þrýsta á um harðari lög gegn spillingu, sem er landlæg í Indlandi.

Hazare, sem er 74 ára, neitaði hins vegar að yfirgefa fangelsið nema hann fengi að halda sínu striki í mótmælunum.

Þúsundir stuðningsmanna hans þustu út á göturnar og boðuðu byltingu gegn spillingaröflum. Yfirvöld gáfu þá skýringu á handtökunni að mótmælendur hefðu ekki viljað fara að tilmælum lögreglu varðandi tímamörk.

Hazare hefur lengi verið með ötulustu baráttumönnum gegn spillingu á Indlandi og var einn af hvatamönnum löggjafar gegn spillingu í vor. Hann er nú að kalla eftir hertari lögum.

Mótmælendur og stjórnarandstaða segja að lausn Hazares úr haldi sýni að stjórnvöld hafi tapað baráttunni.

Stjórnvöld vilja hins vegar meina að þau vilji aðeins tryggja friðinn. Hazare sé í pólitík og ætti að vinna að málum sínum eftir hefðbundnum boðleiðum í stað þess að svelta sig.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×