Erlent

Útlendingastefna mætir aukinni andstöðu

Leiðtogar stærstu fylkinganna Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi sósíaldemókrata, og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra að loknum sjónvarpsumræðum um helgina. nordicphotos/AFP
Leiðtogar stærstu fylkinganna Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi sósíaldemókrata, og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra að loknum sjónvarpsumræðum um helgina. nordicphotos/AFP
Bandalag Íhaldsflokksins og Róttæka flokksins, tveggja danskra stjórnmálaflokka af sitthvorum væng stjórnmálanna, hefur haft óvænt áhrif á kosningabaráttuna þar í landi.

Lars Barfoed, leiðtogi Íhaldsflokksins, og Margrethe Vestager, leiðtogi Róttækra, hafa lofað hvort öðru því að ganga ekki til stjórnarsamstarfs nema báðir flokkarnir verði með í stjórn.

Þar með hafa þau í reynd útilokað að Danski þjóðarflokkurinn, sem leggur alla áherslu á að takmarka möguleika útlendinga í Danmörku, geti haft áhrif á stjórnarstefnuna, eins og hann hefur gert undanfarin ár með því að styðja minnihlutastjórn Íhaldsflokksins og frjálslynda Venstre-flokksins.

Nú strax eru áhrifamiklir einstaklingar innan Venstre byrjaðir að hvetja til þess að Venstre gangi til liðs við bandalag Íhaldsflokksins og Róttækra.

Vinstriblokkin í Danmörku, sem inniheldur Róttæka flokkinn, er þó enn með gott forskot á hægriblokkina samkvæmt skoðanakönnunum.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, sem er leiðtogi Venstre, ákvað fyrir helgi að boða til þingkosninga 15. september næstkomandi þrátt fyrir slæma stöðu hægriflokkanna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×