Erlent

Átök hafa harðnað á ný í Líbíu

Uppreisnarmenn í Líbíu búa sig enn undir lokaorrusturnar.
nordicphotos/AFP
Uppreisnarmenn í Líbíu búa sig enn undir lokaorrusturnar. nordicphotos/AFP
Stuðningsmenn Múammars Gaddafí skutu í gær flugskeytum frá borginni Bani Walid að hersveitum uppreisnarmanna, sem hafa dögum saman hótað því að ráðast á borgina.

Uppreisnarherinn, sem hefur að mestu náð völdum í landinu, hafði gefið stuðningsmönnum fyrri stjórnar frest til dagsins í dag til að gefast upp.

Auk Bani Walid hafa stuðningsmenn Gaddafís tvær aðrar borgir enn á valdi sínu, Sirte og Sabha. Harðir bardagar voru í nágrenni bæði Bani Walid og Sirte í gær, daginn áður en uppreisnarmenn höfðu sagst ætla að láta til skarar skríða. Uppreisnarmenn segja að stuðningsmenn Gaddafís séu innikróaðir og sé sárlega farið að skorta vistir. Þeir hafa einnig sagst hafa umkringt Múammar Gaddafí, án þess þó að hafa upplýst hvar hann á að vera niðurkominn.

Gaddafí, sonur hans Seif al-Islam og Abdullah al-Senoussi, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Gaddafís, eru einu mikilvægu einstaklingarnir úr röðum fyrri ráðamanna landsins sem uppreisnarmenn segja enn vera í felum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×