Erlent

Þingmenn missa mánaðarlaun

Evangelos Venizelos og Georg Papandreú útskýra ákvarðanir sínar. fréttablaðið/AP
Evangelos Venizelos og Georg Papandreú útskýra ákvarðanir sínar. fréttablaðið/AP
Skuldaþjökuð stjórnvöld Grikklands ætla að leggja á nýjan eignaskatt auk þess sem allir kjörnir fulltrúar í landinu missa ein mánaðarlaun.

Evangelos Venizelos fjármálaráðherra og Georg Papandreú forsætisráðherra skýrðu frá þessu í gær. Tilgangurinn er að fá meira fé í ríkissjóð svo betur gangi að greiða afborganir af skuldasúpu ríkisins.

Þessar aðgerðir koma ofan á þær aðhaldsaðgerðir sem stjórnin hafði áður samþykkt að grípa til. Meðal þeirra sem missa launin sín eru allir þingmenn landsins og allir borgarstjórar ásamt forsetanum Karolos Papúlías.

„Það er betra að við öll missum eitthvað en að allt glatist að eilífu,“ sagði Papandreú forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær.

Hann sagði ekkert hæft í því að Grikkland yfirgæfii hugsanlega evrusvæðið. „Til þess að land geti sagt skilið við það,“ sagði hann, „og ég er ekki að tala um Grikkland endilega, heldur hvaða land sem er – þá mun það skapa keðjuverkun, þrýsting á önnur ríki og verður áfram til staðar eins og sár, ef þá ekki upphafið að upplausn alls kerfisins.“

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×