Erlent

Þrír grunaðir um morðið í Danmörku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þrír menn hafa verið handteknir, grunaðir um aðild að morðinu á Vesturbrú í Kaupmannahöfn í gær. Einn af þeim, 47 ára gamall karlmaður, neitar sök í málinu. Krafist hefur verið gæsluvarðhalds yfir honum, eftir því sem danska blaðið Politiken greinir frá.

Maðurinn var handtekinn í gær vegna skotárásarinnar. Hinn myrti var skotinn víðsvegar á líkamanum og í höfuðið. Dómarinn hefur ákveðið að þinghald í málinu verður lokað og bannað nafngreiningar í málinu á þeirri forsendu að óttast sé um hefndaraðgerðir. Auk þess að vera kærður fyrir aðild að morði er hinn 47 ára gamli einnig kærður fyrir vörslu skotvopna.

Lögreglan fann 18 skothylki á vettvangi glæpsins. Um eru að ræða 11 hylki frá að minnsta kosti einni níu millimetra byssu og sjö hylki frá 45. kalíbera. Talið er að hinn myrti geti einnig hafa verið vopnaður hnífi.

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók í gær aðra tvo menn vegna morðsins. Þeir höfðu báðir verið skotnir og voru lagðir inn á Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og á sjúkrahús í Malmø. Þar er um að ræða feðga,  51 árs gamlan mann og 26 ára gamlan son hans, en gæsluvarðhalds hefur jafnframt verið krafist yfir þeim. Lögreglan telur að hinn 26 ára gamli eigi stærsta aðildina að morðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×