Enski boltinn

John Faxe Jensen gerður að blóraböggli hjá Blackburn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John "Faxe" Jensen og Steve Kean.
John "Faxe" Jensen og Steve Kean. Mynd/Nordic Photos/Getty
Daninn John "Faxe" Jensen er hættur sem aðstoðarstjóri Blackburn Rovers en hann hefur gengt starfinu undanfarna níu mánuði. Það má lesa út úr þessu að Jensen hafi verið gerður að blóraböggli fyrir slaka byrjun Blackburn Rovers á tímabilinu.

Skotinn Steve Kean heldur því stöðu sinni sem stjóri Blackburn Rovers en hann situr þessa dagana í heitasta stólnum í ensku úrvalsdeildinni samkvæmt veðbönkum í Englandi.

Blackburn Rovers hefur aðeins fengið 4 stig af 18 mögulegum í fyrstu sex umferðunum og er eins og er í þriðja neðsta sæti deildarinnar. Eini deildarsigur liðsins á tímabilinu er 4-3 sigur á Arsenal fyrir tveimur vikum en Blackburn tapaði 1-3 á móti Newcastle í síðasta leik sínum.

Kean hefur verið stjóri Blackburn síðan að félagið rak Sam Allardyce í desember í fyrra og hann skrifaði undir samning til tveggja ára í janúar.

John Faxe Jensen er 46 ára gamall fyrrum leikmaður Arsenal og danska landsliðsins. Hann varð Evrópumeistari með Dönum 1992 og skoraði þá annað marka liðsins ú úrslitaleiknum. Jensen þjálfaði danska liðið Randers FC 2009 en var þá á undan aðstoðarmaður Michael Laudrup hjá spænska félaginu Getafe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×