Körfubolti

Finnar unnu Slóvena - átta liða úrslitin klár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Finnar rifu sig upp efir stór töp á móti Króatíu og Spáni og unnu glæsilegan 16 stiga sigur á gestgjöfum Slóvena, 92-76, í lokaleik liðanna í milliriðli á Evrópumótinu í körfubolta í Slóveníu. Finnar voru úr leik fyrir leikinn og leikurinn skipti Slóvena engu máli enda þegar ljóst að þeir myndu enda í 2. sæti riðilsins og mæta þar með Frökkum í átta liða úrslitunum.

Gerald Lee var stigahæstur hjá Finnum með 17 stig en Sasu Salin skoraði 16 stig og Petteri Koponen var með 14 stig og 6 stoðsendingar.

Bostjan Nachbar var með 15 stig hjá Slóvenum sem hvíldu lykilmenn í þessum leik. Dragic-bræðurnir, Goran og Zoran, spiluðu sem dæmi aðeins 21 mínútu samanlagt í þessum leik.

Finnar enda mótið í 9. til 10. sæti ásamt Belgum en Grikkir og Lettar ráku lestina í milliriðlinum og enda í 11. og 12. sæti.

Eftir leiki dagsins í F-riðlinum er orðið ljóst hvaða þjóðir mætast í átta liða úrslitunum en leikirnir verða eftirtaldir:

Serbía - Spánn

Slóvenía - Frakkland

Litháen - Ítalía

Króatía - Úkraína




Fleiri fréttir

Sjá meira


×