Körfubolti

Litháar í úrslitaleikinn í fyrsta sinn í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonas Kazlauskas þjálfar landslið Litháa.
Jonas Kazlauskas þjálfar landslið Litháa. Mynd/AFP
Litháen er komið í úrslitaleikinn á Evrópumóti karla í körfubolta sem fram fer í Slóveníu eftir 15 stiga sigur á Króatíu í kvöld, 77-62, í fyrri undanúrslitaleik keppninnar. Litháen mætir annaðhvort Frakklandi eða Evrópumeisturum Spánar í úrslitaleiknum á sunnudaginn en þau mætast seinna í kvöld. Frábær þriðji leikhluti gerði út um leikinn en Litháen vann hann 21-8.

Þetta er fimmta sinn sem Litháar komast í úrslitaleikinn á EM en jafnframt í fyrsta sinn síðan 2003 þegar þeir urðu Evrópumeistarar í Svíþjóð.

Jonas Maciulis (Panathinaikos í Grikklandi), skoraði 23 stig fyrir Litháen og Linas Kleiza (Fenerbahce í Tyrkklandi) var með 22 stig og 11 fráköst. Leikstjórnandinn Mantas Kalnietis (Lokomotiv Kuban í Rússlandi) var síðan með 18 stig. Bojan Bogdanovic skoraði mest fyrir Krótaíu eða 15 stig

Linas Kleiza skoraði 17 stig á fyrstu ellefu mínútum leiksins og hjálpaði litháenska landsliðinu að ná níu stiga forskoti, 29-20. Króatar unnu sig inn í leikinn í öðrum leikhlutanum og í hálfleik munaði aðeins þremur stigum, 40-37.

Litháar gerðu síðan út um leikinn í þriðja leikhlutanum þar sem 18-3 sprettur kom þeim átján stigum yfir þegar sjö mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Litháar voru sextán stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 61-45, og lönduðu þar sannfærandi og öruggum sigri.

Úkraínumenn tryggðu sér sæti í leiknum um fimmta sætið fyrr í dag með því að vinna Ítala 66-58. Með þessum sigri tryggði úkraínska landsliðið sér einnig þátttökurétt á HM í fyrsta sinn í sögu landsins. Eugene Jeter skoraði 20 stig fyrir Úkraínu en Pietro Aradori var með 15 stig fyrir Ítala.

Úkraínumenn mæta Slóveníu í leiknum um fimmta sætið en Slóvenar tryggðu sér sæti í leiknum með öruggum 92-74 sigri aá Serbíu í gær. Ítalir og Serbar spila hinsvegar um 7. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×