Lífið

"Móðurmissirinn breytti mér"

Snorri segist hafa undirbúið sig undir dauða móður sinnar með því að reyna að fjarlægjast hana tilfinningalega og milda þannig höggið.
Snorri segist hafa undirbúið sig undir dauða móður sinnar með því að reyna að fjarlægjast hana tilfinningalega og milda þannig höggið.
Þó Snorri Engilbertsson leikari sé að slá í gegn í Englum alheimsins sem Pétur, einn af vistmönnunum á Kleppi, þá er það ekki leiklistin heldur saga hans sjálfs sem einkum er ætlunin að fjalla um í þessu viðtali.

Hann var sjö ára þegar móðir hans, Kolbrún Kristinsdóttir, greindist fyrst með krabbamein sem dró hana til dauða árið 2005, þegar hún var fimmtíu og fjögurra ára. Faðir Snorra er Engilbert Snorrason tannlæknir og eldri bræður hans eru Jóhann og Helgi Karl Engilbertssynir. Engilbert hóf tannlæknaferil sinn á Hvammstanga árið 1982, sama ár og Snorri fæddist, og þar bjó fjölskyldan í fimm ár.

„Ég á góðar minningar frá Hvammstanga,“ segir Snorri. „Við fluttum í Hafnarfjörðinn 1987 en pabbi hélt áfram að sinna tannlækningum fyrir norðan í einhvern tíma á eftir og þá fylgdi ég honum oft.“

Aldrei feiminn við að stíga á svið

Engilbert, faðir Snorra segir að ljóst hafi verið strax frá upphafi hvert strákurinn stefndi. „Snorri var aldrei feiminn við að stíga á svið og því fleiri sem horfðu á því betra. En hann hefur alltaf verið vandvirkur og metnaðarfullur í því sem tekur sér fyrir nendur, var í samkvæmisdansi í tíu ár og lærði þar mikla ögun. Keppti bæði hér heima og erlendis og náði góðum árangri.“

Snorri kveðst hafa hætt að dansa daginn sem hann byrjaði í framhaldsskóla. „Stelpan sem ég dansaði við í átta ár hætti að dansa við mig og þá ákvað ég að einbeita mér að öðru,“ segir hann og kveðst hafa látið að sér kveða í félagslífinu í Flensborg, tekið þátt í ræðukeppnum, setið í skemmtinefnd, vídeónefnd og menningarnefnd, auk þess að vera skólastjórnarfulltrúi.

„Allt þetta gerði ég kannski svolítið á kostnað námsins því ég var fjögur og hálft ár að ljúka stúdentsprófi en sé ekkert eftir því,“ segir Snorri, sem eftir framhaldsskólann fór í Leikfélag Hafnarfjarðar og kynntist þar meðal annars Gunnari Birni Gunnarssyni sem leikstýrði honum síðar í kvikmyndunum Astrópíu og Gauragangi. Í Flensborg leikstýrði Stefán Jónsson honum í tveimur verkum og varð síðan mentor hans í Leiklistarskólanum. Hann hafði mikil áhrif á að Snorri valdi fimmtán ára baráttu móður sinnar við krabbamein sem einstaklingsverkefni í skólanum.

„Þetta var vídeóverk þar sem ég ræddi við föður minn og bræður í fyrsta skipti um þennan tíma angistar og óöryggis. Það var stórt skref,“ segir Snorri. „Þarna vorum við eftir fjórir karlmenn sem höfðum tekið dálítið karlalega á þessu máli, farið áfram á hörkunni án þess að tjá okkur og það kom í ljós í þessum viðtölum að við vorum dálítið á ólíkum stöðum í úrvinnslunni. En þetta var þroskandi. Mamma á það skilið að við látum dauða hennar ekki íþyngja okkur alla ævi, heldur leyfum missinum að styrkja okkur sem manneskjur.“

„Það var ótrúlega gott fyrir okkur alla að brjóta ísinn og ræða þetta,“ tekur Engilbert, faðir hans, undir og segir að kannski væri hollt fyrir fleiri í sömu stöðu að sjá þetta myndband.

Dauðinn alltaf yfirvofandi

Snorri dregur ekki dul á að veikindi móður hans hafi reynt á hann. „Þetta var alger rússíbanareið því á fimmtán árum fór mamma í gegnum miklar þjáningar á köflum en átti betri tímabil inn á milli. Auðvitað hugsaði ég oft um hvenær hún dæi og hvernig það yrði. Við feðgarnir áttum einu sinni fund með heilbrigðisstarfsmanni sem sagði okkur að mamma ætti bara nokkra mánuði eftir, í mesta lagi ár, en hún lifði í fjögur ár eftir það. Við þennan dóm gerðist hlutur sem var ástæða þess að ég gerði verkefnið síðar, ég fór að búa sjálfan mig undir dauða mömmu með því að reyna að fjarlægjast hana tilfinningalega og milda þannig höggið. Reyndi að verða dálítið kaldur og loka á allan innileik okkar á milli, sem var rosalega sárt. Hún fann þetta og spurði mig, sem betur fer, af hverju okkar samskipti væru orðin svona, af því við vorum mjög miklir vinir. Þá viðurkenndi ég hvað undir byggi og er feginn að ég gat það. Hún virtist skilja afstöðu mína. Svo kom árið 2005. Eftir misheppnaða aðgerð fór mamma í líknarmeðferð og við strákarnir og pabbi sátum hjá henni meðan hún var að takast á við það að vera að deyja. Hún hafði alltaf verið trúlaus og ég sömuleiðis. Dauðastríð er erfið staða og hún fékk til sín prest. Hann sagði, sem mér fannst flott, að hann gæti ekkert fullyrt um framhaldið, það væri enginn bæklingur til um það. Ég sagði mömmu að þó að ég væri trúlaus gæti ég ekki útilokað að eitthvað tæki við eftir dauðann og ef einn staður væri betri en annar hinum megin ætti hún þann besta skilið, þegar litið væri til þess hvernig hún hefði lifað sínu lífi af heilindum og heiðarleika og alið okkur drengina upp. Ég var ánægður með að geta tjáð henni þessa skoðun mína.“

Í skólann í þriðju tilraun

Tveimur mánuðum eftir að móðir hans lést hélt Snorri til Parísar í árs leiklistarnám. „Það var erfitt að kveðja pabba á flugvellinum. Hann var eiginlega á barmi taugaáfalls og það var sárt að geta ekki verið hjá honum,“ segir Snorri. Engilbert minnist þessarar stundar líka.

„Mér fannst erfitt að sjá á eftir stráknum og var með hnút í maganum en hann spjaraði sig mjög vel.“ Snorri kveðst í raun hafa frestað eigin sársauka með því að fara út og vera upptekinn af viðfangsefnunum í skólanum. „Það er samt merkilegt hvernig svona áfall hefur áhrif á líkamann, á svefninn, matarlystina, hárið og húðina,“ rifjar hann upp. Hann kom heim frá Frakklandi mánuði fyrr en áætlað var því hann hafði fengið hlutverk í myndinni Astrópíu.

Eftir það fór hann að vinna á sambýli fyrir fötluð börn í skammtímavistun og segir það hafa verið hollt. Árið 2008 sótti hann um í leiklistardeild Listaháskólans í þriðja skipti og fékk inngöngu. „Ég er þakklátur núna fyrir að ég skyldi ekki komast inn fyrr,“ segir hann. „Árin fjögur í skólanum voru virkilega góður tími. Bekkjarsystkinum mínum finnst mörgum hann hafa liðið hratt. Mér finnst það ekki. Ég veit ekki af hverju. Mér fannst ég upplifa svo margt og taka út svo mikinn þroska.“

Telur hann sorgarreynsluna dýpka hann sem túlkanda í listinni? „Ég get alveg ímyndað mér það, án þess að ég geti fest fingur á það. Móðurmissirinn breytti mér sem manneskju, ég lít öðru vísi á lífið og heiminn.“

Missti fingur

Eins og títt er um ungmenni á Íslandi hefur Snorri kynnst ýmsum störfum í skólafríum. Tvö sumur var hann að vinna við hvalskurð í Hvalfirðinum og faðir hans segir hann hafa sýnt þar mikla lagni. „Eitt sumarið smíðaði hann fyrir mig forláta bílskúr og vannst mjög vel. Lærði heilmikið af afgreiðslumönnunum í BYKO en sýndi líka heilmikla útsjónarsemi og hæfileika á smiðssviðinu, hefur ábyggilega erft það frá móðurafa sínum sem var hagleiksmaður,“ segir Engilbert og heldur áfram að lýsa syni sínum.

„Strákurinn hefur gott geð og sendir góða orku frá sér en hann hefur verið talsvert uppátektarsamur, maður vissi aldrei hvað gerðist næst hjá honum. Það sem kom mér mest á óvart var þegar hann og Gunnar Björn leikstjóri sömdu leikritið Dauði og jarðarber og fóru með það hringferð um landið með leikmyndina í skottinu á Skoda station sem Snorri átti þá. Þeir unnu fyrir sér í tvo mánuði með því að setja upp sýningar í mörgum félagsheimilum. Snorri hefur svo gaman af leiklistinni að það er frábært að hann skuli hafa komist áfram í henni. Það virtist aldrei annað koma til greina hjá honum en sjóbisness.“

Sumarið 2003 vann Snorri garðyrkjustörf hjá Félagsstofnun stúdenta. Þá var hann svo óheppinn að missa hluta af vísifingri hægri handar. Í sjúkrabílnum á leiðinni á Slysó hringdi hann í Helga Karl bróður sinn sem var þá í læknanámi og einmitt að vinna í bráðamóttökunni svo hann gat gert klárt og þeir bræður spjölluðu saman meðan á aðgerðinni stóð. „Slysið var þannig að ég hélt að ég hefði misst alla höndina en þegar ég leit á hana sá ég að það var bara einn fingur farinn. Þá varð ákveðinn léttir. Ég gerði mér strax grein fyrir að þessu yrði ekki breytt og tileinkaði mér þarna á staðnum ákveðið æðruleysi. Hringdi sjálfur á sjúkrabílinn og felldi ekki eitt einasta tár yfir þessum fingri,“ segir Snorri.

Ólíkir bræður

Spurður um samband bræðranna þriggja svarar Snorri: „Það er mjög gott þó við heyrumst ekki mikið. Ég er yngstur – athyglissjúka örverpið! Helgi Karl er næstur, hann er þvagfæraskurðlæknir í Malmö. Við erum líkir að því leyti að okkur þykir báðum leiðinlegt að tala í síma en þegar hann kemur heim eða ég heimsæki hann þá spjöllum við mikið. Hann á eiginlega heiðurinn af því að ég sótti í þriðja skipti um Leiklistarskólann. Við sátum á Ölstofunni og áttum svolítið fallegt tal saman. Jóhann eldri bróðir minn er flugstjóri hjá Icelandair og menntaður vélaverkfræðingur. Það er alveg ótrúlegt hvað við erum ólíkir, bræðurnir en völdum okkur þó allir óvenjulegan vinnutíma. Þeir gáfu mér mjög mikla gjöf með því að taka þátt í þessu verkefni í skólanum sem ég var að lýsa áðan, því það var erfitt fyrir þá.“

Þegar Jóhann bróðir Snorra er beðinn um komment um litla bróður er hann pínu tregur til. „Eins og Snorri er opinn er ég lokaður,“ segir hann afsakandi. Viðurkennir svo að honum finnist alltaf jafn skrítið að sjá Snorra uppi á sviði. „Að horfa á einhvern sem maður þekkir svona vel setja sig í alls konar hlutverk verkar mjög skringilega á mig. En mér finnst hann standa sig mjög vel og er stoltur af honum.“

Fjölbreytt verkefni á sviðinu

Snorri fékk árssamning í Þjóðleikhúsinu um leið og hann útskrifaðist úr leiklistarskólanum. Það var stór áfangi. Nú hefur hann framlengt samninginn um ár. „Ég er búinn að vera í fimm uppsetningum í vetur svo það hefur verið mikil vinna en ég hef litið á hana sem framhald á mínu námi,“ segir hann og skrunar í lokin yfir verkefnin sem hafa verið fjölbreytt.

„Ég byrjaði í Dýrunum í Hálsaskógi sem bakaradrengurinn og hlakkaði alltaf til að mæta í bakaríið með Erni Árnasyni, hann er svo lifandi og skapandi leikari að senan er aldrei eins frá einni sýningu til annarrar. Ágústa Skúladóttir leikstýrði því verki og ég hafði haft góð kynni af henni áður. Svo var ég í Tveggja þjónn, farsa sem Þórhildur Þorleifs leikstýrði, hún er reynslubolti sem ég lít upp til. Síðan fór ég í Macbeth undir stjórn Benedikts Andrews. Mikill skóli og gaman að fá að vera í Shakespeare-verki á stóra sviði Þjóðleikhússins. Næst kom Fyrirheitna landið sem Guðjón Petersen leikstýrði. Ólíkt hinum verkunum og mikil áskorun. Þaðan fór ég svo yfir í Engla alheimsins, þar sem ég fékk það tækifæri að leika Pétur, herbergisfélaga aðalpersónunnar Páls. Þorleifur Arnarson leikstýrir Englunum af miklu öryggi og sýnir glöggt hvert hægt er að þenja sviðsverk. Þá hefur heldur betur verið lærdómsríkt að sjá Atla Rafni takast á við aðalhlutverkið. Allt er gert af hjarta og ástríðu og það hefur verið upplifun fyrir mig, nýútskrifaðan, að fá að fylgjast með.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×