Körfubolti

Hlynur með 31 stig en Drekarnir töpuðu í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Valli
Sundsvall Dragons tapaði með fjórum stigum á heimavelli á móti Södertälje Kings, 90-94, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld en það þurfti að framlengja leikinn til að fá úrslit.

Drekarnir voru búnir að vinna fjóra síðustu heimaleiki sína í deildinni en töpuðu nú í annað skiptið á stuttum tíma.

Hlynur Bæringsson átti stórleik fyrir Sundsvall Dragons og skoraði 31 stig en hann skoraði fimm þriggja stiga körfur í leiknum og hitti úr 10 af 13 skotum sínum utan af velli.

Ægir Þór Steinarsson átti einn sinn besta leik með Drekunum og skoraði 17 stig á 28 mínútum en Jakob Örn Sigurðarson var með tíu stig.

Ægir kom Sundsvall í 74-72 með þriggja stiga körfu á síðustu mínútunni í venjulegum leiktíma og Jakob Örn Sigurðarson fékk síðan tækifæri til að gera út um leikinn á vítalínunni

Jakob hitti aðeins úr öðru víti sínu og leikmenn  Södertälje tryggðu sér framlengingu með þriggja stiga körfu í blálokin. Leikmenn Södertälje Kings voru síðan sterkari í framlengingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×