Enski boltinn

Manchester United menn voru of seinir að bjóða Ancelotti stjórastöðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti og Sir Alex Ferguson.
Carlo Ancelotti og Sir Alex Ferguson. Vísir/Getty
Jose Mourinho er nýr knattspyrnustjóri Manchester United og sá þriðji í röðinni síðan að Sir Alex Ferguson hætti eftir 27 tímabil og þrettán Englandsmeistaratitla.

David Moyes fékk aðeins tíu mánuði í starfinu og Louis van Gaal fékk ekki að halda áfram með Manchester United þrátt fyrir að hafa gert liðið að bikarmeisturum.

David Moyes var samt ekki fyrsti kostur sem eftirmaður Sir Alex Ferguson heldur Ítalinn Carlo Ancelotti. Því heldur Carlo Ancelotti allavega sjálfur fram í viðtali við FourFourTwo.

Carlo Ancelotti tekur við liði Bayern München í sumar en hann segir í viðtalinu að Manchester United menn hafi hreinlega verið of seinir að bjóða honum stjórastöðuna á Old Trafford.

Sir Alex Ferguson hafði samband við Carlo Ancelotti árið 2013 og bauð honum starfið.

„Eftir að hann (Alex Ferguson) hætti 2013 þá talaði hann við mig. Ég hafði þá bara þegar lofað að taka við Real Madrid. Manchester United menn voru of seinir því annars hefði ég verið áhugasamur að koma á Old Trafford," sagði Carlo Ancelotti í viðtalinu við FourFourTwo.

Carlo Ancelotti er orðinn 56 ára gamall en undir hans stjórn vann Chelsea Englandsmeistaratitilinn 2009-10 tímabilið. Hann hefur einnig gert lið að frönskum meisturum (2013) og ítölskum meisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×