Fótbolti

Snilldartaktar James Rodriguez komu Kólumbíumönnum áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez fagnar marki sínu.
James Rodriguez fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Bandaríkin og Kólumbía unnu bæði leiki sína í Ameríkubikarnum í nótt og eru bæði í fínum málum eftir tvær umferðir í A-riðlin þessarar sérstöku hundrað ára afmælisútgáfu Copa América.

Kólumbíumenn eru komnir áfram eftir 2-1 sigur á Paragvæ og Bandaríkjamenn, sem hefði verið úr leik með tapi, unnu 4-0 sigur á Kosta Ríka sem skilar þeim tveggja stiga forskoti á þriðja sæti riðilsins fyrir lokaumferðina.

Bandaríkjamenn eru á heimavelli í keppninni og þurftu að sanna ýmislegt eftir tap fyrir Kólumbíu í fyrsta leik. Þeir gerðu það gott betur í fyrri hálfleiknum þar sem liðið skoraði þrjú mörk.

Clint Dempsey skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 9. mínútu en þetta var fimmtugasta mark hans fyrir bandaríska landsliðið. Jermaine Jones og Bobby Wood bættu síðan við mörkin í fyrri hálfleiknum og Graham Zusi innsiglaði síðan sigurinn þremur mínútum fyrir leikslok.

Vítaspyrnan í byrjun leiks breytti náttúrulega miklu fyrir Jürgen Klinsmann og lærisveina hans og létti mikilli pressu af liðinu. Reynsluboltarnir Clint Dempsey og Jermaine Jones voru bestu menn liðsins.

James Rodriguez, leikmaður Real Madrid, skoraði í öðrum leiknum í röð þegar Kólumbíumenn unnu 2-1 sigur á Paragvæ og tryggðu sér með því sæti í átta liða úrslitunum.

James Rodriguez bæði skoraði mark og lagði upp mark fyrir félaga sinn þegar Kólumbía komst í 2-0 á fyrsta hálftíma leiksins. Carlos Bacca skoraði fyrst með skalla eftir hornspyrnu James Rodriguez á 12. mínútu og James Rodriguez bætti síðan við öðrum mark með frábæru skoti á 30. mínútu.

Victor Ayala minnkaði muninn fyrir Paragvæ á 71. mínútu en það var fyrsta mark liðsins eftir marklaust jafntefli við Kosta Ríka í fyrsta leik. Lið Kosta Ríka, sem komst í átta liða úrslitin á síðasta HM, hefur enn ekki skorað í keppninni.

Þrátt fyrir sigurinn þá reyndi mikið á David Ospina, markvörð Arsenal og Kólumbíu, í leiknum en Paragvæ sá til þess að leikurinn var hin besta skemmtun.

Í kvöld fer fram önnur umferð í B-riðlinum og þá mætast í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, Brasilía og Haíti fyrst klukkan 23.30 og svo á eftir Ekvador og Perú klukkan 2.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×