Fótbolti

Angel Di Maria grét eftir sigurleik Argentínumanna í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Di Maria minntist ömmu sinnar með því að fagna með þessari treyju.
Angel Di Maria minntist ömmu sinnar með því að fagna með þessari treyju. Vísir/Getty
Argentínumenn byrjuðu Ameríkukeppninni á sigri í nótt þegar argentínska liðið vann 2-1 sigur á meistuum Síle en Síle vann Ameríkukeppnina fyrir ári síðan. Panamamenn fengu öll þrjú stigin í hinum leik riðilsins þegar þeir lögðu Bólivíu 2-1.

Angel Di Maria minntist ömmu sinnar, sem féll frá nokkrum klukkutímum áður, með því að skora og leggja upp mark en hann brotnaði síðan niður í viðtölum eftir leikinn.

Lionel Messi sat allan tímann á bekknum í leiknum í nótt en argentínski þjálfarinn var búinn að taka þá ákvörðun að hvíla hann í þessum fyrsta leik liðsins á mótinu.

Það er reyndar nóg að taka af flottum leikmönnum hjá argentínska liðinu og kappar eins og Ezequiel Lavezzi, Javier Pastore, Sergio Aguero og Erik Lamela byrjuðu líka allir á bekknum.

Angel Di Maria, Gonzalo Higuain, Ever Banega og Nicolás Gaitán voru fjórir fremstir í leiknum og það var samvinna tveggja þeirra sem sköpuðu bæði mörkin.

Benfica-maðurinn Nicolás Gaitán, sem spilaði í stöðu Lionel Messi í leiknum, átti reyndar skalla í stöng eftir fyrirgjöf Angel Di Maria eftir aðeins tveggja mínútna leik. Gaitán var ógnandi en tókst ekki að skora.

Mörkin komu bæði í seinni hálfleiknum. Fyrst skoraði Angel Di Maria á 51. mínútu eftir sendingu Ever Banega og sex mínútum síðar launaði Di Maria greiðann með því að leggja upp mark fyrir Ever Banega sem skoraði nánast af sama stað.

Di Maria fagnaði marki sínu með því halda á lofti treyju með skilaboðum til ömmu sinnar sem lést aðeins nokkrum tímum fyrir leikinn. Di Maria brotnaði niður og grét í viðtali eftir leikinn.

Varamaðurinn Jose Pedro Fuenzalida náði síðan að minnka muninn í uppbótartíma leiksins en sigur Argentínumanna var þó aldrei í mikilli hættu í nótt.

Panama er að taka þátt í Ameríkukeppninni í fyrsta sinn og markakóngurinn Blas Perez sá til þess að liðið fagnaði sigri í sínum fyrsta leik. Panama vann 2-1 sigur á Bólivíu. Blas Perez skoraði bæði mörkin þar á meðal sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok.

Blas Perez skoraði fyrsta markið strax á 11. mínútu leiksins en Juan Carlos Arce jafnaði metin fyrir Bólivíu eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik.

Blas Perez er orðinn 35 ára gamall og vantar nú aðeins eitt mark til þess að jafna markamet þjóðar sinnar. Þetta voru landsliðsmörk númer 40 og 41. Perez spilar nú með Vancouver Whitecaps í bandarísku MLS-deildinni.

Angel Di Maria fagnar marki sínu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×