Fótbolti

Copa América hefst í nótt | Allir leikirnir í beinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Pulisic og James Rodríguez.
Christian Pulisic og James Rodríguez. vísir/getty
Copa América, Suður-Ameríkukeppnin í fótbolta, hefst í nótt með opnunarleik Bandaríkjanna og Kólumbíu á Levi's vellinum í Santa Klara, Kaliforníu.

Copa América er haldin í ár í tilefni af aldarafmæli keppninnar. Að þessu sinni fer keppnin fram í Bandaríkjunum en leikið verður á 10 völlum víðsvegar um landið.

Sextán þjóðir taka þátt en ekki tólf eins og venjan er. Öll 10 liðin frá CONMEBOL, knattspyrnusambandi Suður-Ameríku, taka þátt auk sex liða frá CONCACAF, knattspyrnusambandi Norður- og Mið-Ameríku og Karabíahafsins.

Allir 32 leikirnir í keppninni verða sýndir í beinni útsendingu á Sportstöðvunum og þá verður henni gerð skil í Sumarmessunni sem er á dagskrá alla leikdaga.

Fjörið hefst sem áður sagði í nótt þegar Bandaríkin og Kólumbía mætast. Mikil pressa er á bandaríska liðinu og þá sérstaklega þjálfaranum, Jürgen Klinsmann.

Þjóðverjinn segir að markmiðið sé að komast í undanúrslit. Til þess að það gerist þurfa Bandaríkjamenn líklega að vinna sinn riðil (sem samanstendur, auk Bandaríkjanna og Kólumbíu, af Kosta Ríka og Paragvæ) til að forðast Brasilíu í 8-liða úrslitunum.

Klinsmann getur ekki nýtt krafta framherjans Jozys Altidore í keppninni en það verður spennandi að sjá hvernig hinn 17 ára gamli Christian Pulisic, leikmaður Borussia Dortmund, spjarar sig.

Kólumbía teflir fram sterku liði sem ætlar að gera betur í Copa América í ár en í fyrra þar sem Kólumbíumenn duttu út í 8-liða úrslitum.

Radamel Falcao er ekki í kólumbíska hópnum og Jackson Martínez er frá vegna meiðsla. Þá átti stærsta stjarna Kólumbíu, James Rodríguez, erfitt tímabil með Real Madrid þar sem hann sat mikið á bekknum.

Leikur Bandaríkjanna og Kólumbíu hefst klukkan 01:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Útsendingin hefst 01:05 en sýnt verður frá opnunarhátíð keppninnar fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×