Fótbolti

Stelpur! Hver ætlar að leika Mel Gibson í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Samsett
Það er þekkt hjá sumum íþróttakappliðum að horfa á myndina „Braveheart" fyrir mikilvæga leiki og ef eitthvað lið ætti að gera það þá væri það íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fyrir leikinn mikilvæga á móti Skotum í kvöld.

Íslenski kvennalandsliðið er nefnilega á mjög sögufrægum slóðum úti í Skotlandi og tengist það mikið helstu sjálfstæðishetju Skota, William Wallace.

Liðið æfði fyrir leikinn í Stirling og yfir æfingavellinum gnæfði mikið minnismerki um áðurnefndan William Wallace.  Margir kannast við myndina „Braveheart" þar sem Mel Gibson fór með hlutverk þessarar sjálfstæðishetju Skota.

Knattspyrnusambandið segir frá þessu á heimasíðu sinni. Það var einmitt árið 1297 að Wallace vann sinn fræknasta sigur á ferlinum þegar hann lagði her Englandskonungs í bardaga við Stirling þrátt fyrir að hafa miklu færri menn í sínum röðum.  

Þessi bardagi er þungamiðja í myndinni "Braveheart" sem fékk á sínum tíma Óskarsverðlaun fyrir bæði bestu mynd og bestu leikstjórn. Mel Gibson leikstýrði myndinni og lék aðalhlutverkið.

„Margir muna fleyg orð úr þeirri mynd þegar Wallace er að hvetja sína menn til dáða fyrir bardagann: „And dying in your beds many years from now, would you be willing to trade all the days from this day to that for one chance, just one chance to come back here and tell our enemies that they may take our lives, but they'll never take our freedom!!!"," segir í fréttinni á heimasíðu KSÍ og þar segir ennfremur:

„Ári síðar, 1298,  féll William af stalli þegar hann tapaði bardaga gegn Játvarði I, Englandskonungi sem háður var Falkirk, þar sem liðið dvelur hér í Skotlandi.  Eftir það fór Wallace til Frakklands þar sem hann dvaldi um hríð en snéri aftur til Skotlands 1303.  Englendingar settu fé til höfuðs honum og hann var handtekinn nálægt Glasgow árið 1305.  Hann var þar líflátinn og líkami hans hlutaður í sundur og dreift um England og Skotland.  Skotar fengu svo sjálfstæði frá Englandi árið 1928, eða 23 árum eftir dauða Wallace en hann hefur síðan verið ein helsta hetja Skota."

Leikur Skotlands og Ísland hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér inn á Vísi. Bæði lið hafa unnið alla sína leiki til þess að toppsætið riðilsins er undir í kvöld.

Skotar eru með 15 stig eftir 5 leiki en Ísland er með 12 stig eftir 4 leiki.  Skotar hafa skorað 27 mörk í leikjunum fimm til þessa en Ísland hefur enn ekki fengið á sig mark í undankeppninni.

Nú er bara stóra spurning hver af íslensku stelpunum ætlar að leika Mel Gibson í kvöld? Verður það kannski fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir eða varafyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir. Það er nóg af leiðtogum í íslenska liðinu og ekkert verra að vera með marga Wallace í baráttuleik sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×