Fótbolti

Messi skoraði þrjú í sigri Argentínu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi fagnar einu af þremur mörkum sínum í nótt.
Messi fagnar einu af þremur mörkum sínum í nótt. vísir/getty
Argentina lenti í engum vandræðum með Panama í D-riðli Suður-Ameríku bikarsins í nótt, en þeir unnu 5-0 sigur þar sem Lionel Messi lék á alls oddi.

Messi byrjaði á bekknum, en kom inná sem varamaður á 61. mínútu, en þá var staðan 1-0. Nicolas Otamendi skoraði fyrsta mark Argentínu, en Anibal Cesis Godoy fékk að líta rauða spjaldið fyrir tvö gul spjöld í liði Panama.

Messi skoraði á 68. mínútu, svo aftur á 78. mínútu og innsiglaði svo þrennuna á 87. mínútu. Sergio Aguero, framherji Manchester City, skoraði svo fimmta mark Argentínu í uppbótartíma og lokatölur 5-0 sigur Argentínu.

Argentina er með sex stig á toppi D-riðilsins, en Panama er með þrjú stig ásamt Síle sem vann 2-1 sigur á Bólivíu í nótt. Arturo Vidal skoraði bæði mörk Síle, en Bólívía er á botninum með 0 stig. Sigurmark Vidal kom í uppbótartíma.

Tveir leikir eru á dagskrá Stöðvar 2 Sport í dag frá Copa America, en klukkan 23:00 mætast Bandaríkin og Paragvæ og svo klukkan 01:10 mætast Kólumbía og Kosta Ríka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×