Körfubolti

Lauflétt hjá Jakob og félögum | Tap hjá lærisveinum Arnars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob stóð fyrir sínu að vanda.
Jakob stóð fyrir sínu að vanda. mynd/borås
Jakob Örn Sigurðarson og félagar í sænska körfuboltaliðinu Borås Basket áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja Malbas að velli í kvöld. Lokatölur 77-49, Borås í vil.

Þetta var þriðji sigur Borås í síðustu fjórum leikjum. Liðið er í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig.

Jakob stóð fyrir sínu í leiknum í kvöld. Hann spilaði í 29 mínútur; skoraði 11 stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Jakob hitti úr tveimur af fimm skotum sínum inni í teig og tveimur af sjö fyrir utan þriggja stiga línuna. Það voru einu þristar Borås í leiknum.

Í dönsku úrvalsdeildinni tapaði Svendborg Rabbits fyrir TFN á heimavelli, 73-77.

Arnar Guðjónsson er þjálfari Svendborg sem er í 3. sæti deildarinnar með 18 stig.

Axel Kárason komst ekki á blað hjá Kanínunum. Hann tók hins vegar fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Stefan Bonneau, sem Svendborg fékk frá Njarðvík fyrr í mánuðinum, skoraði níu stig í leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×