Fótbolti

Luis Suárez brjálaður á bekknum þegar Úrúgvæ datt úr leik | Sjáðu öll mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier"Chicharito" Hernandez fagnar marki sínu í nótt.
Javier"Chicharito" Hernandez fagnar marki sínu í nótt. Vísir/Getty
Mexíkó og Venesúela tryggðu sér í nótt bæði sæti í átta liða úrslitum hundrað ára afmælismóts Ameríkubikarsins eftir sigra í annarri umferð C-riðilsins en Úrúgvæ og Jamaíka eru jafnframt úr leik.

Venesúela vann 1-0 sigur á Úrúgvæ og fylgdi eftir 1-0 sigri á Jamaíku í fyrsta leik og Mexíkó vann 2-0 sigur á Jamaíka en Mexíkóbúar unnu Úrúgvæ 3-1 í fyrstu umferðinni. Bæði Mexíkó og Venesúela eru því með sex stig en Úrúgvæ og Jamaíka eru jafnframt stigalaus og á leiðinni heim eftir lokaumferð riðlakeppninnar.

Salomon Rondon skoraði eina markið á 36. mínútu þegar Venesúela vann 1-0 sigur á Úrúgvæ en tvö mörk hafa dugað Venesúela til að fá sex stig. Þetta var fyrsti sigur Venesúela á Úrúgvæ í tíu ár.

Edinson Cavani fékk þrjú frábær færi í leiknum til að halda lífi í sínu liði en Luis Suárez gat bara horft á leikinn frá hliðarlínunni. Luis Suárez tók eitt brjálæðiskast á bekknum undir lokin þegar hann virtist komast að því að hann mætti ekki fara inná.

Luis Suárez er að jafna sig eftir meiðsli og landsliðsþjálfarinn Oscar Tabarez ákvað að hafa hann ekki virkan í leiknum. Suárez hitaði samt upp í fimmtán mínútur en fékk svo að vita að hann væri ekkert að fara inná völlinn. Barcelona-maðurinn var allt annað en sáttur með það.

Mexíkó vann 2-0 sigur á Jamaíka í hinum leik riðilsins. Javier"Chicharito" Hernandez skoraði fyrra markið með skalla á 18. mínútu og vantar nú aðeins eitt mark til að jafna markamet landsliðs Mexíkó sem Jared Borgetti á.

Oribe Peralta innsiglaði sigurinn níu mínútum fyrir leikslok og markatala liðsins er nú 9-0 síðan að Juan Carlos Osorio tók við þjálfun landsliðsins.

Jamaíkamenn fengu reyndar færin í fyrri hálfleik til að skora mörkin en tókst ekki að skora og hafa þar með spilað 180 markalausar mínútur á mótinu.

Duwayne Kerr, markvörður Jamaíka og Stjörnunnar sat allan tímann á bekknum annan leikinn í röð. Hann datt í raun út úr tveimur keppnum 9. júní því fyrr um kvöldið sló ÍBV lið Stjörnunnar út úr Borgunarbikarnum. Þegar Duwayne Kerr kemur aftur til Ísland þá getur hann einbeitt sér að Pepsi-deildinni eins og félagar hans í Garðabæjarliðinu.

Markið úr leik Venesúela og Úrúgvæ Mörkin úr leik Mexíkó og Jamaíka



Fleiri fréttir

Sjá meira


×