Körfubolti

Frábær endasprettur North Carolina tryggði sjötta NCAA-titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
North Carolina hefur þrisvar sinnum orðið háskólameistari síðan 2005.
North Carolina hefur þrisvar sinnum orðið háskólameistari síðan 2005. vísir/getty
North Carolina varð í nótt háskólameistari í Bandaríkjunum eftir sigur á Gonzaga, 71-65.

Sigurinn var sérstaklega sætur fyrir North Carolina því í fyrra tapaði liðið úrslitaleiknum fyrir Villanova á flautukörfu.

Þetta var sjötti NCAA-meistaratitill North Carolina og sá fyrsti frá 2009. Roy Williams, þjálfari North Carolina, hefur stýrt liðinu til síðustu þriggja meistaratitla þess.

Leikurinn í nótt var mjög harður en alls voru 44 villur dæmdar og liðin tóku samtals 52 vítaskot.

Nigel Williams-Goss kom Gonzago tveimur stigum yfir, 63-65, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þá sögðu leikmenn North Carolina hingað og ekki lengra, skoruðu átta síðustu stigin og tryggðu sér sigurinn.

Justin Jackson skoraði fimm af síðustu átta stigum North Carolina í leiknum og endaði með 16 stig. Joel Berry II var stigahæstur í liði North Carolina með 22 stig, auk þess sem hann gaf sex stoðsendingar.

Nigel Williams-Goss skoraði 15 stig fyrir Gonzaga sem kom mikið á óvart í vetur með því að komast alla leið í úrslit í fyrsta sinn í sögu skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×