Körfubolti

Fengu tólf tíma rútuferð sem refsingu frá eigandanum fyrir að láta sópa sér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki flug heldur rúta.
Ekki flug heldur rúta. vísir/getty
Dimitris Giannakopoulos, eigandi gríska körfuboltaliðsins Panathinaikos, sendi leikmenn liðsins heim með rútu frá Istanbúl til Aþenu í gærkvöldi eftir að liðið féll úr leikí Meistaradeildinni.

Giannakopoulos þráði að komast í Final Four-helgi Meistaradeildarinnar og lofaði leikmannahópnum að þeir myndu fá 250.000 evra bónus til að skipta á milli sín ef þeir kæmust í úrslitahelgina.

Það tókst svo sannarlega ekki því liðið tapaði einvígi sínu á móti Fenerbache frá Tyrklandi í átta liða úrslitum Meistaradeildinnar, 3-0. Eftir að liðinu var sópað í gærkvöldi tók Giannakopoulos ákvörðun um að refsa leikmönnunum með rútuferð.

Hann afpantaði flugið sem liðið átti að fara í eftir leikinn og sendi leikmennina, þjálfarana og starfsliðið í 1.000 kílómetra rútuferð frá Istanbúl til Aþenu en hún tekur um tólf klukkustundir.

Panathinaikos er sigursælasta lið í sögu Meistaradeildarinnar en það hefur orðið meistari sex sinnum, síðast í Barcelona árið 2011 eftir sigur á Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í úrslitaleiknum.

Gríska stórliðið hefur aftur á móti ekki komist í undanúrslit og tekið þátt í úrslitahelginni síðan það hafnaði í fjórða sæti árið 2012 eftir tap fyrir Barcelona í leik um bronsið.

Dimitris Giannakopoulos, eigandi Panathinaikos.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×