Körfubolti

Tryggvi með sinn besta leik í Euroleague í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason í leiknum í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason í leiknum í kvöld. Vísir/EPA
Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var í stóru hlutverki í kvöld í Meistaradeild Evrópu í körfubolta eða Euroleague eins og keppnin heitir.

Spænska liðið Valencia, sem Tryggvi leikur með, varð reyndar að sætta sig við þriggja stiga tap á útivelli á móti Maccabi Fox Tel Aviv frá Ísrael, 94-91, eftir jafnan og spennandi leik.

Tryggvi kom mikið við sögu og átti sinn besta leik í þessari sterkustu körfuboltadeild Evrópu en hann skoraði átta stig á rúmum fjórtán mínútum í leiknum.

Þetta var áttunda tap spænska liðsins í Euroleague á tímabilinu en Valencia liðið hefur aðeins náð að vinna þrjá af ellefu leikjum sínum.

Tryggvi hefur verið að kíkja inná í nokkrum leikjum Valencia í Euroleague í vetur en nú kom Tryggvi við sögu frá fyrsta leikhluta.

Tryggvi nýtti 4 af 6 skotum sínum en hann var einnig með 2 varin skot, 2 fráköst og 3 fiskaðar villur.

Tryggvi hefur nú alls spilað í rétt tæpar 36 mínútur í Euroleague á tímabilinu eða næstum því heilan leik. Á þeim tíma hefur Tryggvi skoraði 14 stig, tekið 7 fráköst og varið 6 skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×