Körfubolti

Fékk klapp á bakið frá einni stærstu stjörnu NBA-deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson hefur spilað vel með Davidson í vetur og bætt sig í öllum tölfræðiþáttum.
Jón Axel Guðmundsson hefur spilað vel með Davidson í vetur og bætt sig í öllum tölfræðiþáttum. Vísir/Getty
Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur á vellinum þegar Davidson Wildcats vann öruggan sigur á VMI Keydets, 74-51, í bandaríska háskólakörfuboltanum í fyrradag. Grindvíkingurinn skoraði 22 stig og tók auk þess sjö fráköst, gaf tvær stoðsendingar og stal boltanum í fjórgang.

„Þetta var klárlega einn af bestu leikjunum sem ég hef spilað í vetur,“ sagði Jón Axel þegar Fréttablaðið heyrði í honum hljóðið í gær.

Frægasti sonur Davidson, Steph Curry, var mættur á John M. Belk Arena til að fylgjast með sínu gamla liði og sat á fremsta bekk. Eftir leikinn kíkti Curry inn í klefa og heilsaði upp á Jón Axel og félaga.

„Hann heilsaði öllum. Þegar hann heilsaði mér sagði hann bara flottur leikur, haltu áfram að vera ákveðinn og ef þú heldur áfram að spila eins og þú ert að gera er aldrei að vita nema við sjáumst fljótlega,“ sagði Jón Axel um samskipti sín við Curry. Hann segir að Curry, sem hefur tvisvar sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar, sé í miklum metum í Davidson.

„Skólinn er að sjálfsögðu mjög stoltur af honum. Hann er eiginlega eini leikmaðurinn sem hefur náð langt í NBA. Hann er andlit skólans. Hann sendir þjálfaranum reglulega skilaboð,“ sagði Jón Axel sem spilar undir stjórn sama þjálfara hjá Davidson og Curry gerði á sínum tíma. Sá ágæti maður heitir Bob McKillop og hefur þjálfað Villikettina síðan 1989.



Vísir/Getty
Michael Jordan fylgdist líka með honum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jón Axel spilar vel undir vökulu auga stórstjörnu. Um helgina fylgdist sjálfur Michael Jordan með leik Davidson gegn gamla liðinu sínu, North Carolina Tar Heels. Jón Axel skoraði þá 19 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar í 10 stiga tapi, 75-85.

„Þetta er það skemmtilega við þetta. Þegar þú ert í Bandaríkjunum og spilar svona stóra leiki eru stórir kallar að fylgjast með,“ sagði Jón Axel sem hafði ekki hugmynd um að Jordan hefði fylgst með leiknum fyrr en eftir á.

Jón Axel er á sínu öðru tímabili hjá Davidson sem er staðsettur í samnefndri borg í Norður-Karó­línu. Sé litið á tölfræðina er ljóst að Grindvíkingurinn hefur bætt sig gríðarlega milli ára. Hann hefur tvöfaldað stigaskor sitt, tekur mun fleiri fráköst og gefur fleiri stoðsendingar. Þá tekur Jón Axel fleiri skot í leik og skotnýtingin er miklu betri, bæði inni í teig, utan hans og á vítalínunni.

„Við misstum aðalskorarann okkar sem útskrifaðist. Það myndaðist hlutverk sem ég ákvað að stíga inn í. Það er alltaf skemmtilegra að vera lykilmaður og það er bara undir mér komið að standa mig,“ sagði Jón Axel sem kann vel við ábyrgðina sem fylgir því að vera í stærra hlutverki.



Vísir/Getty
Hefur bætt við sig vöðvamassa

Aðspurður segist Jón Axel hafa bætt líkamlegan styrk hjá sér síðan hann fór til Davidson.

„Maður hefur þyngst og bætt við sig vöðvamassa til að geta spilað á móti stærri og sterkari mönnum,“ sagði Jón Axel. Hann segir æfingarnar hjá Davidson margar og stífar. „Við æfum 5-6 sinnum í viku, lyftum þrisvar. Æfingarnar eru í 2,5-3 tíma. Þetta er mjög skipulagt og allt á fullum hraða.“

Jón Axel og félagar hafa unnið alla þrjá heimaleiki sína á tímabilinu og alls fjóra af sjö leikjum sínum. En hvert er markmið Villakattanna í vetur?

„Það er að komast í March Madness. Og ef við komumst þangað að reyna að fara eins langt og við getum,“ sagði Jón Axel og átti þar við úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans sem nýtur mikilla vinsælda. „Við eigum að vera með mjög sterkt lið í vetur og það væri gaman að komast í úrslitakeppnina.“

Vísir/Getty
Bæting á tölfræði Jóns Axels á milli ára (meðaltöl í leik):



Stig

8,2  -  17,1

Fráköst

4,0   - 6,0

Stoðsendingar

3,5  -  5,4

Stolnir boltar

1,1  -  1,7

Skotnýting

41,1%  -  53,4%

Þriggja stiga nýting

32,7%  -  43,9%

Vítanýting

73,3% -   85,7%

Skot reynd

6,4  -  10,4

Þriggja stiga skot reynd

3,6 -   5,9

Vítaskot reynd

2,4  -  4,0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×