Körfubolti

Martin í úrvalsliði deildarinnar: Ætti ekki að staldra lengi við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu.
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, heldur áfram að vekja athygli í frönsku B-deildinni í körfubolta en nú hefur hann verið valinn í úrvalslið deildarinnar fyrir fyrri hluta tímabilsins.

Þetta kemur fram á heimasíðunni bebasket.fr sem segir að Martin hafi verið ein helst ástæða fyrir góðu gengi liði hans, Etoile Carleville-Mézieres, á tímabilinu. Liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með ellefu sigra í átján leikjum.

Farið er fögrum orðum um frammistöðu Martins á síðunni en þetta er hans fyrsta tímabil í deildinni eftir að hafa leikið með LIU-háskólanum í Brooklyn í Bandaríkjunum í tvö ár.

„Ef að liðið verður á verðlaunapalli í vor verður hann án nokkurs vafa ein helsta ástæðan fyrir því,“ segir í umsögninni.

Martin hefur í átján leikjum til þessa skorað 17,9 stig að meðaltali í leik, gefið 5,9 stoðsendingar og tekið 4,2 fráköst. Hann spilar að jafnaði 33 mínútur í leik.

„Þessi 22 leikmaður ætti ekki að staldra lengi við í frönsku B-deildinni,“ segir enn fremur í áðurnefndri grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×