Körfubolti

Davidson eitt af fimm mögulegum öskubuskuævintýrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Vísir/Getty
Jón Axel Guðmundsson og félagar í Davidson fá mjög erfiðan mótherja í fyrstu umferð úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans en sumir eru á því að þeir gætu komið á óvart á móti Kentucky.

Washington Post tók sig til að tilnefndi þau fimm skólalið sem að þeirra mati eru líklegust til að koma á óvart í marsfárinu í ár.

Davidson er í þessum hópi hjá Washington Post ásamt Loyola Chicago, New Mexico State, Bucknell og Penn.







Jón Axel Guðmundsson og félagar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni NCAA með því að vinna Rhode Island í úrslitaleik Atlantic 10 deildarinnar. Leikurinn vannst með einu stigi og Jón Axel var í risastóru hlutverki í því að landa þeim sigri.

Næst á dagskrá er leikur á móti Kentucky skólanum sem hefur dælt leikmönnum inn í NBA-deildina á síðustu árum. Þrír leikmenn liðsins á síðasta ári voru valdir í nýliðavalinu 2017.





Blaðmaður Washington Post segir að sóknarleikur Davidson snúist mikið um þriggja stiga skotin en liðið hefur hitt úr 39 prósent þristanna sinna í vetur sem er frábær nýting.

Jón Axel er ein af bestu skyttum liðsins en líka sá sem býr til mörg opin þriggja stiga skot fyrir félaga sína í liðinu.

Takist Davidson að koma á óvart og slá út Kentucky þá bíður liðsins leikur á móti annaðhvort Arizona eða Buffalo í 32 liða úrslitunum. Leikur Davidson og Kentucky er á fimmtudagskvöldið en hann hefst klukkan 23:10 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×