Körfubolti

Stjórn FIBA Europe yfirgaf Seljaskóla í seinni hálfleik: Kláruðu leikinn á appinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikurinn í Seljaskóla í gær var mikil skemmtun
Leikurinn í Seljaskóla í gær var mikil skemmtun Vísir/Andri Marinó
Stjórn FIBA Europe er á landinu vegna fundarhalda og voru stjórnarmeðlimir heiðursgestir á leik ÍR og Stjörnunnar í úrslitakeppni Domino's deildar karla í gær.

Athygli vakti að stjórnin yfirgaf leikinn í seinni hálfleik þrátt fyrir að mikil spenna hafi verið í leiknum. ÍR sigraði leikinn 67-64 og er með 2-1 forystu í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ og stjórnarmeðlimur FIBA Europe, var með í för og þegar Vísir heyrði í honum í dag sagði hann ferðalangana einfaldlega hafa verið svanga.

„Þau voru orðin mjög svöng og þreytt, voru mörg að koma í gær, og langaði bara að fara að borða.“

Hannes sagðist sjálfur hafa verið með hnút í maganum yfir því að yfirgefa leikinn áður en honum lauk, en þetta sé víst algengt erlendis að heiðursgestir yfirgefi leiki snemma.

Aðspurður á léttu nótunum hvort stjórnarmeðlimum hafi ekki bara einfaldlega blöskrað við íslenskum körfubolta sagði Hannes það af og frá.

„Þeim fannst mjög gaman og hin besta skemmtun. Í rútunni þegar við fórum til baka vorum við að horfa á restina í 365 appinu,“ sagði Hannes.

Þegar Vísir hitti á Hannes var stjórnin á leiðinni til Reykjavíkur eftir að hafa farið hinn klassíska „Gullna hring“ þar sem gestum var boðið upp á íslenska tómatsúpu og stjórnarmeðlimir fengu íslenskt lambakjöt í gærkvöldi.

Eins og áður segir er stjórnin á Íslandi vegna fundarhalda og verður fundað allan daginn á morgun. Á meðal stjórnarmeðlima er fyrrum NBA leikmaðurinn Andrei Kirilenko.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×