Körfubolti

Flautukarfa Elvars gat ekki komið í veg fyrir tap

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Elvar Már Friðriksson var stigahæstur hjá liði Barry University með 26 stig ásamt því að gefa tíu stoðsendingar í 100-109 tapi eftir framlengingu gegn Southern Florida Mocs í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Gestirnir í Barry byrjuðu leikinn betur og leiddu með þremur stigum í hálfleik en í leikslok var staðan 91-91 og þurfti því að grípa til framlengingar þar sem Mocs reyndust sterkari.

Náði Barry að jafna metin með flautukörfu frá Elvari en hann skoraði síðustu fimm stig Barry í venjulegum leiktíma.

Elvar átti frábæran leik í liði Barry með 26 stig, 10 stoðsendingar, fjögur fráköst, einn stolinn bolta og aðeins einn tapaðan bolta en hann hitti úr ellefu af sautján skotum sínum í leiknum.

Þetta var sjötta tap vetrarins hjá Barry sem hafa nú tapað tveimur leikjum í röð en þeir hafa verið mun sterkari á heimavelli (9-2) heldur en á útivelli(4-4) í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×