Körfubolti

Körfuboltastrákur réð ekki við tárin þegar hann sá mömmu sína í fyrsta sinn í fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nobertas Giga.
Nobertas Giga. Jacksonville State.
Nobertas Giga er frá Litháen en árið 2013 tók hann þá ákvörðun að flytja frá fjölskyldu sinni og koma til Bandaríkjanna til að spila körfubolta.

Það fylgdu því fórnir að elta körfuboltadrauminn sinn. Strákurinn hafði ekki séð mömmu sína síðan þá eða þar til að skólinn hans Jacksonville State skipulagði óvænta endurfundi mæðginanna.

Nobertas Giga var plataður á fund með þjálfarteyminu þar sem fara átti yfir mikilvæga hluti fyrir komandi leiki liðsins en úrslitin ráðast einmitt í bandaríska háskólaboltanum á næstu vikum.

Nobertas var nú ekki alveg sama um allar myndavélarnar í herberginu en þjálfararnir sannfærðu hann um að það ætti nú bara að gera heimildarmynd um gengi liðsins í úrslitakeppninni í ár.

Eftir nokkra stund kölluðu þjálfararnir á móður hans og viðbrögð stráksins voru mjög sérstök. Hann réð ekki við tárin og það tók líka smá tíma fyrir hann að átta sig á því hvað var í raun að gerast. Það má sjá myndband af þessu hér fyrir neðan.







Það tók þrjú ár fyrir Nobertas að komast í 1. deildarskóla en hann er nú að klára sitt annað tímabil hjá Jacksonville State. Hann byrjaði í Midland College, fór síðan í Tallahassee Community College og eyddi loks ári St. Benedict's skólanum í Newark.

Þetta er síðasta tímabilið hans í bandaríska háskólaboltanum og er hann nú byrjunarliðsmiðherji Jacksonville Stateliðsins sem ætlar sér stóra hluti í úrslitakeppninni í ár.

Nobertas Giga er með 8,3 stig og 6,2 fráköst að meðaltali í leik á þessu tímabili en tölurnar hans hafa lækkað aðeins frá því í fyrra.

Nú er að sjá hvort að koma mömmu hans til Bandaríkjanna muni kveikja í kappanum nú þegar úrslitakeppnin hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×