Fótbolti

Mbappé átt erfitt með svefn eftir tapið fyrir Man. Utd.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mbappé var með böggum hildar eftir tapið fyrir Manchester United.
Mbappé var með böggum hildar eftir tapið fyrir Manchester United. vísir/getty
Kylian Mbappé hefur ekki getað fest svefn síðan Paris Saint-Germain tapaði fyrir Manchester United, 1-3, í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku. PSG vann fyrri leikinn á Old Trafford með tveimur mörkum en féll úr leik á útivallareglunni.

„Ég er í áfalli og er orðlaus,“ sagði Mbappé. „Ég hef ekki getað sofið og ég held að það sama gildi um samherja mína. Þetta var erfitt. Við lögðum mikið á okkur en erum úr leik. En lífið heldur áfram og við ætlum að klára tímabilið með sóma,“ sagði Mbappé.

Franski heimsmeistarinn hefur átt frábært tímabil og hefur verið orðaður við spænsku stórveldin Real Madrid og Barcelona. Hann segir að hann sé ekki á förum frá París.

„Ég er viss um að ég verð hérna á næsta tímabili. Það sem gerðist gegn United breytir engu um það. Það er nógu slæmt að hafa dottið út svo ég fari ekki að bæta óvissu við mína stöðu ofan á það,“ sagði hinn tvítugi Mbappé.

PSG er með 17 stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Dijon á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×