Fótbolti

Ekki alltaf sann­gjörn gagn­rýni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Stöð 2

„Ég ætla ekki að standa hérna og ljúga að þér, það er búið að vera mikið að gera og þetta er búið að vera erfitt að mörgu leyti,“ sagði Arnar Þór Viðarsson er hann ræddi við Stöð 2 og Vísi eftir að landsliðshópur Íslands fyrir leikina gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi var tilkynntur.

Arnar Þór segir starfið hafa verið að mörgu leyti erfitt en þakkar því teymi sem hann hefur í kringum sig. Þá segist hann ótrúlega stoltur af því að vera landsliðsþjálfari Íslands. Viðtalið við Arnar Þór má sjá í spilaranum hér að neðan.

„Sem betur er frábært teymi í kringum mig, ekki bara þjálfarateymi heldur teymi innan KSÍ sem að hefur fengið að mínu mati ekki sanngjarna gagnrýni. Það eru hlutir sem þú tekur á, þetta er líka þroskandi og ég segi alltaf að þó þetta sé erfitt og krefjandi þá er þetta rosalega skemmtilegt. Ég persónulega er það stoltur af því að vera landsliðsþjálfari Íslands að þetta getur ekki verið annað en skemmtilegt, það kemur ekki annað til greina,“ sagði Arnar Þór aðspurður hvernig væri að vera landsliðsþjálfari í þessu árferði.

„Við veljum bara þá leikmenn sem við teljum vera besta fyrir hvert og eitt verkefni, og við getum valið. Svo förum við í hvaða stríð sem er með þeim leikmönnum.“
Klippa: Landsliðsþjálfarinn um starf sitt

„Oft á tíðum er gagnrýnin kannski ekki alveg sanngjörn vegna þess að það eru yfirleitt nokkrar hliðar á öllum málum. Sannleikurinn er ekki alltaf vinstri eða hægri, hann er oft í miðjunni. Það er bara þannig í lífinu að við tjáum okkur um einhver mál sem við vitum ekki hvernig er verið að taka á hinum megin við bandið, það er það eina sem ég meina. Öll umræða er flókin vegna þess það eru mismunandi hliðar á málum,“ svaraði Arnar Þór er hann var spurður út í hvað hann átti við með að teymi innan KSÍ hafi ekki fengið sanngjarna gagnrýni.


Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur KSÍ

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardal í dag þar sem þeir tilkynntu hópinn fyrir næstu leiki í undankeppni HM karla í fótbolta.

Arnar Þór hefur ekki rætt við Gylfa

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki hafa rætt við Gylfa Þór Sigurðsson eftir að hann var handtekinn á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×