Jóhann Berg og Kári skiptust á að bera fyrirliðabandið í síðasta landsleikjaglugga, fyrir mánuði síðan. Kári var ekki valinn að þessu sinni og Jóhann dró sig út úr hópnum vegna meiðslahættu en bætti því við að óánægja með störf KSÍ undanfarið hjálpaði ekki til.
Aron Einar hefur verið fyrirliði frá árinu 2012 en sætir nú lögreglurannsókn eftir ásakanir um nauðgun og er því ekki í landsliðshópnum.
Birkir verður því fyrirliði á morgun í landsleik númer 102 og kvaðst að sjálfsögðu stoltur af því þó að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann bæri fyrirliðabandið.
„Þetta met skiptir mig voðalega litlu máli“
Birkir nálgast óðum met Rúnars Kristinssonar sem lék 104 A-landsleiki, og metið gæti fallið áður en árið er á enda.
Nafni Birkis Bjarnasonar, Birkir Már Sævarsson, er jafn honum í kapphlaupinu um metið en sá fyrrnefndi sagði þá þó ekki í neinni samkeppni um að ná metinu.
„Þetta met skiptir mig voðalega litlu máli. Ef að Birkir Már nær því þá er ég mjög glaður fyrir hans hönd. Þetta er ekki eitthvað sem við hugsum út í dags daglega,“ sagði Birkir Bjarnason léttur á blaðamannafundi í dag.