Enski boltinn

Tíu leikmenn Bolton björguðu stigi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson og félagar í Bolton björguðu stigi gegn Morecambe í dag.
Jón Daði Böðvarsson og félagar í Bolton björguðu stigi gegn Morecambe í dag. Dave Howarth - CameraSport via Getty Images

Jón Daði Böðvarsson og félagar hans í Bolton björguðu stigi er liðið heimsótti Morecambe í ensku C-deildinni í dag. Lokatölur urðu 1-1, en jöfnunarmark Bolton kom seint í uppbótartíma.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja. Það dró þó til tíðinda á 69. mínútu þegar Ricardo Santos fékk að líta beint rautt spjald fyrir að koma í veg fyrir opið marktækifæri.

Heimamenn í Morecambe nýttu liðsmuninn fjórum mínútum síðar þegar Cole Stockton skoraði eftir stoðsendingu frá Adam Phillips.

Á 88. mínútu þurfti að gera hlé á leiknum þar sem Ian Evatt, þjálfari Bolton, missti stjórn á skapi sínu. Evatt virtist vera gjörsamlega brjálaður út í eitthvað sem hann heyrði frá stuðningsmönnum Morecambe.

Leikurinn hélt þó loks áfram og á fimmtu mínútu uppbótartíma jafnaði varamaðurinn Amadou Bakayoko metin fyrir Bolton og tryggði liðinu um leið eitt stig.

Bolton situr nú í 11. sæti deildarinnar með 39 stig eftir 29 leiki, tíu stigum meira en Morecambe sem situr í 21. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×