Enski boltinn

Klopp: Ekki í stuði fyrir eltingaleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki í stuði fyrir eltingaleik.
Jürgen Klopp er ekki í stuði fyrir eltingaleik. Visionhaus/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist varla vera nógu gáfaður til að hugsa um næsta leik, hvað þá að hann geti verið að einbetia sér að ná Manchester City í kapphlaupinu um enska deildarmeistaratitilinn.

Liverpool er nú sex stigum á eftir toppliði Manchester City. Liðin eiga þó eftir að mætast innbyrðis og þeir rauðklæddu eiga leik til góða.

Klopp hefur þó engan áhuga á því að velta fyrir sér hvað gæti gerst í titilbaráttunni þar sem hann eigi fullt í fangi með að undirbúa sína menn fyrir leikinn gegn West Ham sem fram fer í dag

„Ég nýt þess að vera í þeirri stöðu sem við erum í en ég hef ekki gaman af spurninunum um stöðuna því þær eru endalausar og það er eins og við séum nú þegar búnir að vinna þessa leiki,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

„Ef við töpum á morgun þá munið þið öll sitja hér og segja mér að titilbaráttan sé búin. Ég hef ekki pláss í hausnum fyrir allar mögulegar útkomur.“

„Ég get ekki verið að hugsa um hvað við getum unnið. Ég er varla nógu gáfaður til að einbeita mér að einum leik. Við erum ekki á slæmum stað, en það eru mjög margar áskoranir framundan.“

„Ég er ekki í stuði fyrir eltingaleik. Ég vona bara að við verðum tilbúnir fyrir leikinn á móti West Ham,“ sagði Þjóðverjinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×