Fótbolti

Tips­bladet: FCK borgaði tæpar 50 milljónir króna fyrir Ás­geir Galdur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Galdur Guðmundsson handsalar samninginn um að koma til Kaupmannahafnar í sumar og spila með liðum FCK.
Galdur Guðmundsson handsalar samninginn um að koma til Kaupmannahafnar í sumar og spila með liðum FCK. fck.dk

Samkvæmt heimildum Tipsbladet í Danmörku þá borgaði danska stórliðið FC Kaupmannahöfn tæpar 50 milljónir íslenskra króna fyrir hinn 15 ára gamla Ásgeir Galdur Guðmundsson er félagið keypti hann frá Breiðabliki á dögunum.

Fyrir rétt rúmri viku var tilkynnt að FC Kaupmannahöfn hefði fest kaup á hinum 15 ára gamli Ásgeiri Galdri. Hann kom við sögu í einum deildarleik Breiðabliks á síðustu leiktíð en Ásgeir Galdur gekk í raðir Blika árið 2019 frá ÍBV.

Mikkel Köhler, yfirmaður leikmannaleitar FCK, hélt vart vatni yfir Ásgeiri Galdri er félagaskiptin voru tilkynnt.

„Galdur er einn af allra hæfileikaríkustu leikmönnum Norðurlanda í sínum áragangi. Hann er með mikla sóknarhæfileika sem gera að verkum að hann getur gert útslagið í leikjum. Einnig er hann fljótur, spilar með báðum fótum, og ekki síst er hann ungur maður með mjög metnaðarfullt hugarfar,“ sagði Köhler.

Nú hefur Tipsbladet fengið það staðfest að FCK hafi borgað tvær og hálfa milljón danskra króna fyrir leikmanninn. Gerir það 48 og hálfa milljón íslenskra króna á núverandi gengi.

Vísir hefur fjallað um brotthvarf ungra og efnilegra leikmanna úr Bestu deildinni hér á landi og hvort það skaði deildina að missa leikmenn á borð við Ásgeir Galdur svo snemma til útlanda. Það er hins vegar ljóst að fá lið á Íslandi geta sagt nei við svona gylliboðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×