Umfjöllun: Suður-Kórea - Ísland 1-0 | Með tvö naum töp heim til Íslands

Sindri Sverrisson skrifar
Damir Muminovic í baráttu við Oh Hyeon-Gyu í leiknum í Suður-Kóreu í dag.
Damir Muminovic í baráttu við Oh Hyeon-Gyu í leiknum í Suður-Kóreu í dag. Getty/Han Myung-Gu

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta tapaði 1-0 gegn Suður-Kóreu í vináttulandsleik í Seúl í dag. Suður-Kóreumenn eru á lokastigunum í undirbúningi sínum fyrir HM í Katar en hvorug þjóðin var með sitt sterkasta lið.

Song Minkyu skoraði eina mark leiksins í dag eftir um hálftíma leik en heimamenn hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum. Ísland fékk sín tækifæri í fyrri hálfleik en gekk ekkert að skapa færi í seinni hálfleiknum þrátt fyrir að spila síðustu mínútur leiksins ellefu gegn tíu.

Ísland tapaði þar með báðum vináttulandsleikjum sínum í þessum glugga 1-0 því áður hafði liðið tapað fyrir Sádi-Arabíu á sunnudaginn.

Liðið í þessum leikjum var að stórum hluta skipað leikmönnum úr Bestu deildinni á Íslandi sem nú fá kærkomið frí eftir langa leiktíð. 

Ísland verður hins vegar með sinn sterkasta hóp í Baltic Cup sem hefst í Litháen á miðvikudaginn.

Byrjunarlið Íslands gegn Suður-Kóreu. Efri röð: Höskuldur Gunnlaugsson, Damir Muminovic, Óttar Magnús Karlsson, Frederik Schram, Róbert Orri Þorkelsson. Neðri röð: Danijel Djuric, Viktor Örlygur Andrason, Viktor Karl Einarsson, Bjarki Steinn Bjarkason, Hörður Ingi Gunnarsson, Júlíus Magnússon.Getty/Han Myung-Gu

Ísland var án fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar sem spilaði gegn Sádum og verður svo aftur með í Baltic Cup. Í hans fjarveru bar Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliðabandið og alls voru sjö leikmenn úr Bestu deildinni í byrjunarliði Íslands.

Víkingurinn Danijel Djuric lék sinn fyrsta A-landsleik og það var helst að hætta skapaðist í kringum hann í fyrri hálfleiknum. Danijel komst í skotfæri á tólftu mínútu, eftir að Ísland hafði varla snert boltann fyrstu mínúturnar, en skot hans var varið og skömmu síðar átti hann skot í varnarmann úr góðri stöðu eftir misheppnaða sendingu í vörn Suður-Kóreu.

Það voru hins vegar heimamenn sem voru mun sterkari í leiknum og eftir því sem leið á fyrri hálfleik sköpuðu þeir sér fullt af ágætum færum og fáein mjög góð, en fóru illa með þau. 

Framherjinn Cho Guesung náði sífellt að skapa sér pláss í vítateig Íslands og þó að hann hafi ekki nýtt færin átti hann frábæra stoðsendingu í marki Kóreumanna, sem kom með skalla frá Minkyu.

Lítið sást hins vegar til sóknarleiks íslenska liðsins en minnstu munaði þó að Óttar Magnús Karlsson kæmi enninu í boltann á 40. mínútu, eftir frábæra fyrirgjöf frá Viktori Örlygi Andrasyni. Óttar og Bjarki Steinn Bjarkason, sem var á hægri kantinum, komust lítið í boltann í leiknum en á stuttum kafla átti Óttar þó þennan skallamöguleika og svo skot framhjá eftir bestu sókn íslenska liðsins í leiknum.

Yoon Jong-Gyu með Danijel Dejan Djuric á hælunum en Danijel var að spila sinn fyrsta A-landsleik.Getty/Han Myung-gyu

Suður-Kórea gaf hins vegar engin færi á sér í seinni hálfleiknum og hélt áfram að skapa hættu við mark Íslands. Arnar Þór Viðarsson gerði sínar fyrstu skiptingar eftir klukkutíma leik og nýtti þegar upp var staðið allar sex skiptingarnar. 

Enginn þeirra hressti þó upp á sóknarleik liðsins nema þá í lokin þegar Daníel Hafsteinsson kom inn á og hann átti skalla rétt yfir, eftir sendingu frá Júlíusi Magnússyni. Íslenska liðið var manni fleira á þessum lokamínútum sem Daníel spilaði því Kóreumenn höfðu klárað sínar skiptingar þegar einn úr þeirra liði meiddist.

Ísland náði hins vegar ekki að skapa sér fleiri færi og hópurinn heldur því heim til Íslands án þess að hafa skorað mark í ferðinni, gegn þjóðum sem verða á HM síðar í þessum mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira