Vísir greindi frá fyrir helgi að kvennalið Man United væri að missa tvo af sínum bestu leikmönnum frítt. Liðið endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Chelsea. Man Utd fór svo alla leið í úrslit ensku bikarkeppninnar en þurfti að sætta sig við silfur þar sem Chelsea vann deild og bikar.
Til að bæta gráu ofan á svart þarf Man United að fylla tvö risastór skörð í sumar þar sem það hafði þegar verið staðfest að framherjinn Alessia Russo væri á förum þegar samningur hennar rennur út í lok júní. Nú hefur Barcelona staðfest komu Batlle en samningur hennar rennur út á sama tíma.
T'estàvem esperant, Ona pic.twitter.com/UgszxuzTW7
— FC Barcelona Femení (@FCBfemeni) June 19, 2023
Hin 24 ára gamla Batlle hefur verið orðuð við uppeldisfélag sitt Barcelona nær allt tímabilið þar sem vitað var að samningur hennar rynni út og illa gengi að endursemja. Hún átti frábært tímabil fyrir Rauðu djöflanna en í 19 deildarleikjum skoraði hún eitt mark og gaf 9 stoðsendingar.
Batlle gekk í raðir Man United árið 2020 en hafði áður leikið með Madríd CFF og Levante á Spáni. Nú fær hún loks tækifæri til að spila fyrir uppeldisfélagið og ekki skemmir fyrir að Barcelona er ríkjandi Spánar- og Evrópumeistari.