Fótbolti

Á toppnum og með mun fleiri mörk en bæði Real Madrid og Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleix Garcia fagnar einu af mörkum Girona á þessu tímabili en það hefur verið nóg af þeim.
Aleix Garcia fagnar einu af mörkum Girona á þessu tímabili en það hefur verið nóg af þeim. Getty/ Juan Manuel Serrano

Stærsta fótboltaævintýrið á Spáni þessa dagana er án efa það sem er í fullum gangi hjá Katalóníufélaginu Girona.

Litla liðið í Katalóníu hefur gert magnaða hluti á leiktíðinni og er nú með tveggja stiga forskot í efsta sæti deildarinnar eftir tólf leiki.

Það er vissulega smá þema í evrópsku deildunum að óvænt lið hafa verið á toppnum eins og Tottenham í Englandi, Bayer Leverkusen í Þýskalandi og Nice í Frakklandi. Allt lið sem hafa mikla hefð og sögu en hafa beðið lengi eftir titli. Það eru 52 ár síðan Tottenham varð meistari, 64 ár síðan að Nice vann titilinn og Leverkusen hefur aldrei orðið þýskur meistari.

Fjórtán þúsund manna völlur

Það er samt erfitt að setja Girona í sama flokk og þessi sögufrægu fótboltafélög sem eru öll frá stórum borgum. Girona er sannkallað smálið með aðeins fjórtán þúsund manna völl og 55 milljón evra fjárhagsáætlun sem þykja smáaurar í þessum fótboltaheimi.

Félagið er líka nýkomið upp í deild þeirra bestu á Spáni eftir að hafa verið lengstum í B-, C- og jafnvel D-deildinni á Spáni. Liðið var í D-deildinni fyrir aðeins sextán árum síðan. Nú er öldin önnur í norður Katalóníu.

Girona menn hafa unnið tíu af tólf leikjum í deildinni á þessu tímabili og eina tapið kom á móti Real Madrid (0-3) í lok september. Eftir jafntefli í fyrstu umferð þá hefur Girona unnið tíu af síðustu ellefu leikjum sínum.

Vann bara þrjá fleiri leiki allt síðasta tímabil

Allt síðasta tímabil vann Girona aðeins þremur leikjum meira eða þrettán af 38 leikjum sínum. Einn af þeim var 4-2 sigur á Real Madrid í aprílmánuði.

Hinn 48 ára gamli Míchel tók við Girona liðinu árið 2021 en hann er leikahæsti leikmaður í sögu Rayo Vallecano með 313 leiki frá 1993 til 2012 með smá hléi á milli 2003 og 2006.

Tók við liðinu í B-deildinni

Girona var í b-deildinni þegar hann tók við og hann kom því upp í gegnum úrslitakeppnina á fyrsta ári. Liðið náði síðan tíunda sætinu á fyrsta tímabilinu í A-deildinni í fyrra og er núna á toppnum. Á öllum tímabilum hans hefur því liðið tekið stórt stökk.

Það er ekki bara árangurinn sem hefur vakið athygli á Girona liðinu heldur ekki síst spilamennskan. Það er óhætt að segja að það sé skemmtilegt að horfa á leiki Girona, sannkölluð rússíbanareið.

Spila alvöru sóknarbolta

Þetta er lið sem tekur mikla áhættu í sínum leik og spilar alvöru sóknarbolta. Það hefur líka skilað liðinu miklu fleiri mörkum en stórlið Real Madrid og Barcelona. Girona hefur skorað 29 mörk í 12 leikjum eða sex fleiri en Real Madrid og fimm fleiri en Barcelona.

Liðið er líka að fá sig mörg en það hafa verið skorað samtals 44 mörk í leikjum liðsins í vetur. Sem sagt, eintóm skemmtun. Markahæsti leikmaður liðsins á þessari leiktíð er Úkraínumaðurinn Artem Dovbyk með sex mörk á sínu fyrsta tímabili með félaginu en hann hefur einnig gefið fjórar stoðsendingar.

Það verður auðvitað erfitt fyrir Girona liðið að halda út í kapphlaupinu á löngu tímabili við lið eins og Real Madrid, Barcelona, Atletico Madrid eða Real Sociedad. Það væri hins vegar mikið afrek takist þessum litla klúbbi að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.

Gæti komið upp vandamál

Komist liðið í Meistaradeildina kemur reyndar upp eitt vandamál. Eigendur Manchester City í City Football Group eiga nefnilega 47 prósent hlut í spænska félaginu. Þeir þurftu að sækja um leyfi hjá UEFA og sanna um leið að rekstur félaganna sé algjörlega aðskilinn.

Það eru til fordæmi eins og með Red Bull Salzburg (Austurríki) og RB Leipzig (Þýskaland) sem bæði eru í Meistaradeildinni á þessu tímabili.

Það er hins vegar enn langt í að þetta verði eitthvað til að ræða um. Girona þarf náttúrulega að halda þetta út og fyrsta skrefið er að ná góðum úrslitum á móti Rayo Vallecano á útivelli um helgina. Michel er náttúrulega að mæta á sinn gamla heimavöll og spila á móti félagi sem hann lék yfir þrjú hundruð leiki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×