Þrumuskot fyrir utan teig tryggði Dönum stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Morten Hjulmand jafnaði metin fyrir Dani.
Morten Hjulmand jafnaði metin fyrir Dani. Peter Lous/BSR Agency/Getty Images/Getty Images

Danmörk og England gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust á EM í knattspyrnu í dag.

Það mátti búast við hörkuleik þar sem þessi lið hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár. England hafði betur í framlengdum leik í undanúrslitum á EM 2020 en Danir hefndu sín þegar þeir felldu Englendinga úr A-deild Þjóðadeildarinnar. 

Nú var komið að enn einni rimmu liðanna og voru það Englendingar sem áttu fyrsta höggið. Þegar það voru 18 mínútur liðnar gleymdi Victor Kristiansen að gá að sér og Kyle Walker stal boltanum. Walker óð inn á teig og átti fyrirgjöf sem fór af tveimur varnarmönnum Danmerkur áður en boltinn féll fyrir fætur Harry Kane sem gat ekki annað en skorað.

Eftir þetta tóku Danir öll völd á vellinum, Englendingar áttu engin svör og á 34. mínútu jafnaði Morten Hjulmand með þrumuskoti af 28 metra færi. 

Kane var kominn langt niður og átti slaka þversendingu sem Danir komust inn í. Kristiansen gaf boltann á Hjulmand sem lét bara vaða á markið. Boltinn söng í stönginni og síðan netinu, staðan 1-1 og þannig var hún í hálfleik.

Í síðari hálfleik var í raun lítið að frétta. Bæði lið sköpuðu sér nokkur hálffæri, en hvorugu liðinu tókst að finna netmöskvana til að stela sigrinum. 

Niðurstaðan varð því að lokum 1-1 jafntefli og liðin skiptu stigunum á milli sín. Englendingar eru nú með fjögur stig eftir tvo leiki og eru svo gott sem komnir upp úr riðlinum.

Danska liðið er hins vegar aðeins með tvö stig og þarf að öllum líkindum á að minnsta kosti stigi að halda til að koma sér áfram.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira