Íslandshrellir bjargaði Fulham með ó­trú­legum hætti

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Wilson jafnaði metin með mögnuðu marki í uppbótartíma, og skoraði svo einnig sigurmark skömmu síðar.
Harry Wilson jafnaði metin með mögnuðu marki í uppbótartíma, og skoraði svo einnig sigurmark skömmu síðar. Getty/Adam Davy

Eftir að hafa másið og blásið nánast allan leikinn tókst Fulham loks að koma boltanum í netið hjá Brentford í uppbótartíma, og það tvisvar, í 2-1 sigri í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Maðurinn sem hrelldi Ísland í síðasta mánuði, Harry Wilson, skoraði bæði mörk Fulham sem fram að uppbótartímanum virtist hreinlega fyrirmunað að skora, en liðið hafði þá átt yfir tuttugu skot gegn þremur frá Brentford.

Leikur gestanna gekk út á að verjast, eftir að Þjóðverjinn VItaly Janelt hafði komið þeim yfir með frábæru skoti utan teigs á 24. mínútu.

En þegar komið var fram í uppbótartíma, og Wilson kominn inn á sem varamaður, náði hann að jafna metin með stórkostlegu skoti aftur fyrir sig, yfir Mark Flekken sem stóð í marki Brentford að vanda á kostnað Hákons Rafns Valdimarssonar.

Brentford komst svo reyndar í dauðfæri til að skora sigurmark en nýtti það ekki og í staðinn skoraði Wilson öðru sinni og tryggði Fulham dísætan sigur.

Þar með komst Fulham upp fyrir Brentford og jafnaði Bournemouth og Newcastle að stigum í 9.-11. sæti, með 15 stig eftir 10 umferðir. Brentford er áfram með 13 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira