Viðskipti erlent

Asda ræður Lazard til að skoða Iceland

Asda önnur stærsta stórmarkaðakeðja Bretlands hefur ráðið fjárfestingarbankann Lazard til að meta möguleikana á að gera kauptilboð í Iceland Foods verslunarkeðjuna. Lazard er framarlega í ráðgjafaþjónustu og eignastýringu í Bretlandi og víðar. Asda er í eigu Wal-Mart stærstu verslunarkeðju heimsins.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að Asda hafi nú stigið fyrstu skrefin í átt að kauptilboði í Iceland. Fari svo að Asda leggi fram tilboð mun keðjan berjast við William Morrison og J Sainbury um kaupin á Iceland að því er Financial Times segir. Tesco gæti einnig blandað sér í þessa baráttu en það er þó talið fremur ólíklegt.

Fram kemur í fréttinni að upplýsingar til hugsanlegra kaupenda fari ekki frá skilanefnd Landsbankans fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa mánaðar.  Því er salan á Iceland ólíkleg fyrr en  í haust.

Hvorki Asda né Lazard vildu tjá sig um málið. Financial Times rifjar það upp að Wal-Mart fékk Lazard til ráðgjafar fyrir ári síðan þegar Wal-Mart keypti Nettó í Bretlandi fyrir 778 milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×