Viðskipti erlent

Fundu 2.300 milljarða fjársjóð í indversku hofi

Talið er að fjársjóður sem nýlega fannst í hindúahofi í suðurhluta Indlands gæti verið 20 milljarða dollara virði eða um 2.300 milljarða kr. Þetta samsvarar hálfri annarri landsframleiðslu Íslands.

Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni segir að meðal þess sem fannst í lokuðu herbergi í hofinu voru sekkir með gimsteinum, hálfs meters löng gullkeðja og um 19 kíló af gullmyntum.

Fyrir utan gull og gimsteina voru margar styttur af guðum og gyðjum til staðar í herberginu en yfir 100 ár eru síðan þetta herbergi var síðast opnað. Það fylgir sögunni að opna eigi annað svipað herbergi í hofinu sem einnig hefur verið lokað í meir en öld.

Hofið sem hér um ræðir var byggt á 16. öld og það er rekið af sjóði sem tilheyrir afkomendum Travancores konungsfjölskyldunnar sem ríkti á svæðinu sem nú tilheyrir héraðinu Kerala í suðurhluta Indlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×